Skip to main content

Persónumiðað skólastarf fyrir öll börn - Það ER góður skóli

Gæði Ásgarðsskóla, skóla í skýjunum hafa verið staðfest, með ytra mati MMR og auðvitað líka með kerfisbundnu innra mati. Námið í skólanum er í samræmi við stefnu skólans, það er sniðið að persónulegum þörfum nemenda, það er unnið lýðræðislega með nemendum, foreldrum og starfsfólk fær þann stuðning sem þarf og innra mat uppfyllir sett skilyrði.

Í Ásgarðsskóla er stefnan skýr. Hún hverfist um allt skólastarfið og birtist á hverjum degi í verkefnum nemenda og kennara. Verkaskipting í skólastjórninni er kannski óvenjuleg að einhverju leyti en uppfyllir samt ströngustu skilyrði. Einn sér um fjármál og rekstur og hefur yfirumsjón með gæðamálum. Annar er skólastjóri nemendanna, starfsfólksins og foreldranna og þriðji stjórnandinn er námskrárstjóri

Fundir eru skipulagðir með stífri fundaáætlun í hverri viku sem aldrei eru felldir niður. Skýr verkaskipting er líka á milli kennara sem byggja á styrkleikum þeirra og kennarar sitja eins fáa fundi og mögulegt er. Það þýðir ekki að kennarahópurinn fái ekki upplýsingar um nemendur en þeir þurfa ekki að sitja fundi um nemendur eða mál sem varða ekki þá beint--- - þvert á móti eins og Esther kom inn á áðan eru kennarar í gríðarlega miklum og kerfisbundnum samskiptum samskiptum við nemendur um nám þeirra og styrkleika. Skiljið þið mig? 

Yfirlit yfir allt nám vetrarins er að finna á einu veggspjaldi. Allt skólaárið er skipulagt, hvert einasta námsmarkmið hefur verið sett niður og útfært útfrá stefnu skólans, hugmyndum, kennara, nemenda og foreldra. Það er þó ekki svo að kennararnir hafi ekki áhrif á fyrirhugað nám - fingraför þeirra eru einfaldlega lögð niður miklu fyrr í ferlinu. Öll áætlanagerð hefur verið aðlöguð að áherslum og stefnu skólans - þar með talið leiðbeiningar um það hvernig námið fer fram. 

Þetta verklag varð til í lærdómssamfélagi með kennurum. Upphaflega þegar við ráðgjafarnir í skólaráðgjöfinni upplifðum að kennararnir sem við vorum að reyna að hjálpa víða um land hlýddu ekki ráðleggingum okkar! Sama hvað við reyndum að sannfæra þau um að beita leiðsagnarnámi, samþættingu og skýrum námsmarkmiðum - já og viðmiðum um árangur -- þá bara gerðist lítið sem ekki neitt. Kennararnir héldu áfram að gera það sama og vanalega. Þeir vildu gera breytingar og fundu þörfina - en ekki tímann til að útfæra námið á þennan hátt. 

Það var ekki fyrr en við fórum sjálf að reyna á eigin skinni að útbúa þessar áætlanir sem við vorum að ætlast til að kennararnir ynnu að við áttuðum okkur á því hvers við værum að ætlast til af þeim og hversu tímafrekt þessi undirbúningsvinna væri. Augljóst  var að kennararnir vildu gera breytingar - það var bara lífsins ómögulegt að finna svo langan samfelldan tíma til að geta undibúið þessa miklu áherslubreytingu.  

Svo við lögðum bara af stað. Við ákváðum að útbúa efni handa kennurunum okkar í þeim sveitarfélögum sem við vorum að hjálpa á þessum tíma og hjálpa þeim að vinna með áætlanirnar og koma í framkvæmd með nemendum - bæði þeim sem voru úti í skólunum og á síðustu þremur árum fyrir okkar eigin æfingaskóla - Skóla í skýjunum

Samtök Iðnaðarins styrktu okkur rausnarlega við gerð nýsköpunarlykilsins en þar var lagður sá grunnur sem áætlanasafnið allt /Námsgagnatorgið// byggir á í dag. SSNE, samtök sveitarfélaga á norðurlandi eystra og Vestfjarðarstofa styrktu okkur líka en aðra styrki höfum við ekki fengið. Þessu til viðbótar og samtímis unnum við með skólum og sveitarfélögum að koma á góðu verklagi um innra mat.

Á þeim þremur árum sem ráðgjafarnir í skólaráðgjafaþjónustunni Ásgarði hafa starfað með Skóla í skýjunum auk samvinnu og samstarfs við fjölda annarra skóla á síðustu 7 árum hefur orðið til gríðarlega umfangsmikið safn af verkefnum sem byggja að langmestu leyti á samþættum nemendastýrðum leiðsagnarnáms - námsferlum. XSTREAM loturnar eru vinsæl samþætt raungreina tengd verkefni sem nemendur nefna gjarnan sem sitt uppáhald. Safnið telur nú um 2500 verkefni sem hægt er að púsla saman á fjölbreyttan máta, endurnýta, breyta og útfæra hvernig sem hentar hverjum skóla eða skólastigi. Einhverjir hafa tekið eftir básnum okkar hér fyrir framan en við köllum námsgagnasafnið ASKINN. 

Í æfingaskólanum okkar - Skóla í skýjunum erum við komin hvað lengst í að innleiða persónumiðað nemendastýrt nám - sem er vel skipulagt og fyrirsjánlegt. Þar vorum við með hreint borð og gátum búið til skólamenningu frá grunni - þar þurfti ekki að afkenna neitt - við gátum bara byrjað. 

Nú er raunveruleikinn þannig að þegar kennararnir í Skóla í skýjunum koma að skólanum að hausti hefur allt fyrirhugað nám skólaársins verið skipulagt. Námsvísir ársins er klár - þ.e. veggspjaldið og allar lotur og verkefni eru tilbúin. Áður en hver lota hefst koma ráðgjafar Ásgarðs og rifja upp með kennurum eðli verkefnanna, meginhugmyndir, námsferli og áherslur. Öll verkefnin hefjast með kveikju, vinnu með hugtök og síðan hefst ferlið þar sem nemendur eflast í hæfninni að beita því sem þeir hafa lært og tengja við fyrri reynslu. Fyrirsjáanleikinn er til lengri tíma og skemmri. Fyrir allt skólasamfélagið. 

Þess má geta að KPMG er þessa dagana að kynna áhugaverðar rannsóknarniðurstöður sem sýna fram skýr tengsl á milli starfsánægju og þess að vita til hvers er ætlast af starfsfólki í starfi. 

Ég hef á löngum ferli sjaldan séð jafnt gott náms- og kennsluskipulag og er að raungerast í skóla í skýjunum, kennarateymið er ótrúlegt og þó ég segi sjálf frá finnst mér kraftaverki líkast hvað kennararnir hafa náð miklum árangri í kennslunni. Skoðanavottorð skólans endurspeglar skipulagið og færni kennaranna, lærdómssamfélag við stjórnendur og ótrúlega gott samspil með nemendum og foreldrum. 

Nýbreytni í skóladagatali og sveigjanlegra skipulag á skólaárinu í heild sinni hefur vakið ánægju. Þetta er afmarkað verkefni skóla í skýjunum. Fyrirsjáanleikinn hjálpar við sveigjanleikann. Það kemur ekki að sök ef einn úr teyminu detti út  dag og dag hvort sem um er að ræða nemendur eða kennara enda er auðvelt að setja sig inn í verkefnavinnuna aftur þegar viðkomandi snýr til baka. Skóladagatalið er í persónumiðað í leiðinni á þann hátt að skóladagarnir eru 190 en bæði nemendur og kennarar velja sér 5 frídaga fyrir áramót og aðra 5 eftir áramót - að jafnaði. Þetta gefur fjölskyldum og einstaklingum svigrúm til þess að laga skóladagatalið að sér og sínum þörfum. Skipulagið er skothelt og næstu skref ávallt tilbúin. 

Í skólaráðgjöfinni til allra skóla - í samræmi við nýlegar farsældaráæherslur -- trúum við því að hvert barn eigi skilið að vaxa og dafna í öruggu umhverfi og vinnum samkvæmt því. Verkefnið er að við beitum hvorki óttablöndnum aga né aðgerðum sem þröngva nemendum eða foreldrum í vörn með því að hóta „afleiðingum“ og beita úrslitakostum - enginn Mentorkvíði eða hótanir um að “ekkert verði úr þér, endir jafnvel á frystihúsinu”. Þetta er raunverulega sá þáttur sem virkilega erfitt er að breyta, hér þarf viðhorf hvers og eins að breytast og við þurfum að innleiða nýja menningu. Ásta Bjarney segir frá fyrirmyndarverkefni Breiðholtsskóla hér á eftir. Í Skóla í skýjunum höfum við náð að byrja með hreint borð og skapa þessa menningu og þess vegna stenst skólastarfið meða annars skoðun og nemendur og foreldrar gefa skólanum þann vitnisburð sem raun ber vitni. Nemendur upplifa traust, að á þau sé hlustað og það gera foreldrar líka.

Hér er salnum er vafalaust fólk sem man eftir einum eða fleiri kennurum sem gengu ógnandi um með kennaraprikið, börðu því reglulega í kennaraborðið eða borð nemendanna. Sumir fengu kennaraprikið í hausinn eða beint á bossann. 

Þó þessi beiting kennarapriksins sé ekki lengur leyfileg má segja að andlegt kennaraprik sé því miður enn ríkjandi of víða. Það er til dæmis enn skýrt í lögum um grunnskóla að það skulu vera „viðurlög“ við brotum á skólareglum. Þetta er vitanlega í hrópandi ósamræmi við þá menntastefnu sem í gildi er og þá farsældarstefnu sem verið er að leggja.

Áhrifaríkasta breytingin á starfsháttum kennara og orðræðu sem hafa náð að tileinka sér þessa menningu er þegar kennarar fara átakalaust að endurskoða sínar aðferðir þegar nemendur ná ekki árangri.  Enginn nefnir að nemandinn sé ómögulegur, óþekkur eða stjórnlaus - heldur gengur orðræðan út á að finna leiðir til að hjálpa nemendum að læra. Ef þau eru ekki að læra - þá erum við ekki að nota aðferðir sem virka! 

En þá er komið að stóru spurningunni: Er þetta eitthvað sem er gerlegt í stórum og litlum skólum um allt land - geta allir skólar orðið grænir? Svarið er að mínu mati afdráttarlaust . Ástæðan fyrir árangri þessa skóla sem hér er staðfastlega með grænt skoðanavottorð og uppfyllir vel skilyrði um gæðastarf. Það sem hér hefur verið gert er í raun ekkert annað en það sem rannsóknir og fræðimenn, stefna þjóðarinnar og aðalnámskrá segir okkur. Hvorki ég né kennararnir eða ráðgjafarnir okkar fundu upp samþættingu, leiðsagnarnám né umvefjandi námsumhverfi. Við treystum ráðleggingum sérfræðinga og gæðaviðmiðum sem hafa verið unnin upp úr menntarannsóknum og góðum árangri af þrautreyndum aðferðum. Saman höfum við fundið verklag sem virkar en það er samt alltaf í umbótaferli með kennurum nemendum og foreldrum. Skólinn er kerfisbundið yfir allt árið að rýna í eigin starfshætti, halda skólaþing, stjórnendur eru í kerfisbundnum innlitum, kennarar rýna sjálfir í sína eigin starfshætti og svo má lengi telja. 

Það er í raun ekkert flókið að yfirfæra þessar áherslur, áætlanir og námskrá yfir á aðra skóla og það er hægt að ná sambærilegum árangri í hverjum einasta leik- grunn og framhaldsskóla á landinu - munurinn á Skóla í skýjunum og öðrum skólum er að hér vorum við með hreint borð og gátum hannað skólamenninguna frá upphafi.  Í öðrum skólum þarf kerfisbundið gott innra mat sem innleiðir skólastefnuna af festu og öfluga stjórnendur og kennara sem trúa á stefnubreytinguna og rannsóknirnar og gæðaviðmin sem urðu til þess að stefnunni var breytt. 

Auðvitað er líklegt að ætla að nauðsynlegar breytingar á námskrám, verklagi og viðhorfi til nemenda og fjölskyldna þeirra verði ekki sársaukalausar fyrir alla. Einhverjir munu þurfa að breyta um starfsvettvang vegna þess að þeir telja óttablandið andrúmsloft vera einu leiðina til að ala upp börn, þrátt fyrir að rannsóknir, og rannsóknastudd gæðaviðmið segi annað. Við eigum að vökva og næra ferðalag þessara barna í gegnum samfélögin okkar, þar sem þau vaxa og dafna í samræmi við sína styrkleika. Það er nýja stefnan. 

Inn með umvefjandi og farsælt skólastarf - út með kennaraprikið og námsmenningu sem einkennist af óttablandinni virðingu. Aðeins þannig næst betri árangur í skólunum okkar. 

Að lokum við ég vil þakka mínu frábæra, öfluga og hæfileikaríka starfsfólki, nemendum og foreldrum fyrir að láta drauminn um fyrirmyndarskóla rætast. Án ykkar værum við ekki hér í dag. Ég vil líka nota tækifærið og þakka það traust sem okkur hefur verið sýnt af skólum og sveitarfélögum landsins. Í dag höfum við á síðustu sjö árum innt af hendi tæplega 40.000 ráðgjafatíma fyrir nánast öll sveitarfélögin á landinu og lært að leysa vandamál með sveitastjórnarmönnum, kennurum, nemendum og foreldrum. 

Ég þakka fyrir mig 

Kristrún Lind Birgisdóttir

Ræða flutt á ráðstefnunni Hvað er góður skóli? Haldin í Hofi 12. apríl s.




Comments

Vinsælt

Hvað er góður skóli? Gæðastarf í leik- og grunnskólum á mannamáli

Tímamóta ráðstefna um menntamál: „Hvað er góður skóli?“ Gæðastarf í leik- og grunnskólum á mannamáli verður haldin þann 12. apríl næstkomandi í Hofi á Akureyri. Ráðstefnan er ætluð sveitarstjórnarfólki, kennurum, starfsfólki skóla, áhugafólki um skólastarf, foreldrum og nemendum. Dagskráin hefst kl. 09.00 og lýkur um kl. 16.00. Ráðstefnugjaldið er aðeins 3.900 krónur og hægt er að tryggja sér miða hér . Skólaráðgjafaþjónustan Ásgarður stendur fyrir ráðstefnunni. Á ráðstefnunni koma fram kennarar, skólastjórnendur, ráðgjafar og stjórnendur sveitarfélaga sem þekkja vel notkun gæðaviðmiða til þess að efla gæði skólastarfs. Hagnýt ráð og leiðbeiningar á mannamáli sem henta öllum sem vilja auka gæði nútíma skólastarfs. Þetta er einstakt tækifæri fyrir sérfræðinga, kennara, skólastjórnendur, foreldra og nemendur til að koma saman og ræða gæði og mikilvægi menntunar í nútíma samfélagi. Við hvetjum alla áhugasama um gott skólastarf í leik- og grunnskólum á Íslandi til að mæta og taka þátt í þe...

Sænska og norska í stað dönsku fyrir unglingastig - nokkur pláss laus!

  Sænska og norska í stað dönsku  Fyrir nemendur á unglingastigi  Kennsla hefst mánudaginn 26. ágúst kl. 15.00 Við hjá Ásgarði skólaþjónustu höfum verið að reka Tungumálaskóla fyrir Akureyrarbæ undanfarin misseri. Við erum með nokkur laus pláss í sænsku og norsku sem okkur langar að bjóða ykkur að nýta ef þið eruð með nemendur sem ættu að vera í þeim fögum.   Kennsla í norsku og sænsku hefst þann 26. ágúst kl. 15.00 í Tungumálaskólanum sem er fjarskóli fyrir nemendur sem eru undanþegnir dönskunámi. Starfsfólk á vegum skóla og ráðgjafarþjónustunnar Ásgarðs (www.ais.is) sér um kennsluna og alla umsýslu. Tímarnir verða á mánudögum milli klukkan 15.00 og 16.00 fram á vor. Við gerum ráð fyrir að nemendur vinni sjálfstætt á milli kennslustunda og geti vonandi nýtt tímann í skólanum á meðan aðrir nemendur eru í dönsku. Hver nemandi fylgir því skóladagatali sem á við þann skóla sem viðkomandi er skráður í.  Öll kennsla fer fram á netinu sem þýðir að gert er ráð ...