Skip to main content

Sænska og norska í stað dönsku fyrir unglingastig - nokkur pláss laus!

 

Sænska og norska í stað dönsku 

Fyrir nemendur á unglingastigi 

Kennsla hefst mánudaginn 26. ágúst kl. 15.00


Við hjá Ásgarði skólaþjónustu höfum verið að reka Tungumálaskóla fyrir Akureyrarbæ undanfarin misseri. Við erum með nokkur laus pláss í sænsku og norsku sem okkur langar að bjóða ykkur að nýta ef þið eruð með nemendur sem ættu að vera í þeim fögum.  

Kennsla í norsku og sænsku hefst þann 26. ágúst kl. 15.00 í Tungumálaskólanum sem er fjarskóli fyrir nemendur sem eru undanþegnir dönskunámi. Starfsfólk á vegum skóla og ráðgjafarþjónustunnar Ásgarðs (www.ais.is) sér um kennsluna og alla umsýslu. Tímarnir verða á mánudögum milli klukkan 15.00 og 16.00 fram á vor. Við gerum ráð fyrir að nemendur vinni sjálfstætt á milli kennslustunda og geti vonandi nýtt tímann í skólanum á meðan aðrir nemendur eru í dönsku. Hver nemandi fylgir því skóladagatali sem á við þann skóla sem viðkomandi er skráður í. 

Öll kennsla fer fram á netinu sem þýðir að gert er ráð fyrir að nemendur sæki tímana heima hjá sér og noti til þess búnað heimilisins.  Nemendur þurfa næði í umhverfinu og aðgang að nettengdri tölvu með lyklaborði, myndavél og hljóðnema. 

Í aðalnámskrá er gerð grein fyrir hvaða nemendur eigi rétt á sænsku eða norskukennslu. Þar stendur: Nemendur, sem hafa rétt á að velja norsku eða sænsku, þurfa að búa yfir undirstöðukunnáttu í málunum. Þeir hafa því kynnst samfélaginu, þekkja tjáskiptareglur þeirra og siði. Sumir þessara nemenda hafa málfarslegar og menningarlegar rætur bæði á Íslandi og í Noregi eða Svíþjóð. Mikilvægt er að þessir nemendur fái hvatningu til að viðhalda og styrkja tengsl við land og þjóð. Undirstöðukunnátta, sem nemandi þarf að hafa til að geta stundað nám í norsku eða sænsku, er að skilja allvel talaða norsku/ sænsku, geta lesið og skilið einfalda norska/sænska texta miðað við sinn aldurshóp og geta gert sig skiljanlegan á töluðu norsku/sænsku máli. Þessi lágmarkskunnátta er nauðsynleg til þess að nemendur geti nýtt sér það norskunám/sænskunám sem í boði er. Öll kennsla í Tungumálaskólanum er þess vegna á 3. stigi. 

Krakkarnir „mæta“ í tímana í gegnum samskiptaforritinu Zoom. Það er hægt að hlaða inn forritinu á tölvur en það er líka hægt að nota Chromebook og komast inn á Zoomið í gegnum vafra. 

Við notum námsumsjónarkerfið Askinn sem kemur í staðin fyrir námsbækur en þar er líka haldið utan um árangur nemenda (www.learncove.askurinn.com). Námsefni Asksins samræmist áherslum menntayfirvalda og byggir ofan á hæfni nemenda. Öll verkefnin eru kyrfilega tengd við áherslur Aðalnámskrár grunnskóla og áhersla er lögð á lykilhæfni, samstarf og samvinnu og ábyrgð á eigin námi. Það er búið að ákveða helstu verkefni vetrarins út frá grunnþáttum menntunar. Námsvísir skólans er lifandi skjal og gæti því breyst eitthvað, en það er hægt að nálgast hann hér fyrir þetta skólaár: Námsvísir 2024 til 2025 Tungumálaskólinn

Norskukennarinn heitir Hallbera Gunnarsdóttir norsk@ais.is og sænskukennarinn heitir Harpa Jónsdóttir svenska@ais.is

Verkefnastýra Tungumálaskólans er undirrituð Anna María Þorkelsdóttir annamaria@ais.is - sími: 842-2466 og hef ég yfirumsjón með starfsemi Tungumálaskóla Ásgarðs.

Kostnaður fyrir einstaka nemanda er 150.000 á ári. Fyrir fleiri nemendur í sama skóla, er veittur 10% afsláttur fyrir hópinn. 


        Anna María Þorkelsdóttir 

Verkefnastýra Tungumálaskólans

annamaria@ais.is - sími: 842-2466


Comments

Vinsælt

Persónumiðað skólastarf fyrir öll börn - Það ER góður skóli

Gæði Ásgarðsskóla, skóla í skýjunum hafa verið staðf est, með ytra mati MMR og auðvitað líka með kerfisbundnu innra mati. Námið í skólanum er í samræmi við stefnu skólans, það er sniðið að persónulegum þörfum nemenda, það er unnið lýðræðislega með nemendum, foreldrum og starfsfólk fær þann stuðning sem þarf og innra mat uppfyllir sett skilyrði. Í Ásgarðsskóla er stefnan skýr. Hún hverfist um allt skólastarfið og birtist á hverjum degi í verkefnum nemenda og kennara. Verkaskipting í skólastjórninni er kannski óvenjuleg að einhverju leyti en uppfyllir samt ströngustu skilyrði. Einn sér um fjármál og rekstur og hefur yfirumsjón með gæðamálum . Annar er skólastjóri nemendanna, starfsfólksins og foreldranna og þriðji stjórnandinn er námskrárstjóri .  Fundir eru skipulagðir með stífri fundaáætlun í hverri viku sem aldrei eru felldir niður. Skýr verkaskipting er líka á milli kennara sem byggja á styrkleikum þeirra og kennarar sitja eins fáa fundi og mögulegt er. Það þýðir ekki að kennara...

Hvað er góður skóli? Gæðastarf í leik- og grunnskólum á mannamáli

Tímamóta ráðstefna um menntamál: „Hvað er góður skóli?“ Gæðastarf í leik- og grunnskólum á mannamáli verður haldin þann 12. apríl næstkomandi í Hofi á Akureyri. Ráðstefnan er ætluð sveitarstjórnarfólki, kennurum, starfsfólki skóla, áhugafólki um skólastarf, foreldrum og nemendum. Dagskráin hefst kl. 09.00 og lýkur um kl. 16.00. Ráðstefnugjaldið er aðeins 3.900 krónur og hægt er að tryggja sér miða hér . Skólaráðgjafaþjónustan Ásgarður stendur fyrir ráðstefnunni. Á ráðstefnunni koma fram kennarar, skólastjórnendur, ráðgjafar og stjórnendur sveitarfélaga sem þekkja vel notkun gæðaviðmiða til þess að efla gæði skólastarfs. Hagnýt ráð og leiðbeiningar á mannamáli sem henta öllum sem vilja auka gæði nútíma skólastarfs. Þetta er einstakt tækifæri fyrir sérfræðinga, kennara, skólastjórnendur, foreldra og nemendur til að koma saman og ræða gæði og mikilvægi menntunar í nútíma samfélagi. Við hvetjum alla áhugasama um gott skólastarf í leik- og grunnskólum á Íslandi til að mæta og taka þátt í þe...