Skip to main content

Óskalisti kennara

Í vor fór af stað verkefni sem í daglegu tali nefndist Bókun 1. Orðið sem slíkt hefur enga merkingu í huga flestra en varðaði gerð kjarasamninga grunnskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga og starfsumhverfi kennara og vinnumats í grunnskólum.

Sveitarfélögin áttu í kjölfarið ítarlegt samtal við sína kennara og fengu þá til þess að leggja mat á starfsumhverfið í víðu samhengi og það starf sem þeim er ætlað að vinna innan svokallaðs vinnumats sem er einskonar tímaáætlun sem gerð er að hausti þar sem áætlað er hversu mikill tími fer í kennslu og undirbúning og önnur verkefni. Sveitarfélögunum var síðan skylt að skila inn úrbótaáætlun þar sem gerð er grein fyrir þeim úrbótum sem sveitarfélögin ætla að ráðast í til að ráða bót á starfsumhverfi kennara og framkvæmd vinnumats. Slík úrbótaáætlun ætti nú að vera til taks hjá hverju sveitarfélagi.

Það er skemmst frá því að segja að fjölmargar ábendingar bárust sveitarfélögunum og nú hafa niðurstöður umbótaáætlana allra sveitarfélaganna sem tóku þátt verið teknar saman í lokaskýrslu sem hægt er að skoða í heild sinni hér.

Af einhverjum ástæðum hafa óskir kennara ekki farið sérlega hátt, kannski er listinn yfirþyrmandi og langur en ef við skoðum heildaróskalistann frá kennurum má sjá ansi skýra mynd af þeim úrbótum sem kennarar landsins telja brýna. Hér eru þau sex atriði sem rötuðu í úrbótaáætlanir yfir 50% grunnskóla landsins. Ég skipti þessum sex atriðum í ,,Stuðning við kennara” og ,,Tækni og húsnæði”.

Stuðningur við kennara:

  • Innra starf / Endurskoða fundaskipulag/Markvissari fundarstjórn 60,4%

  • Stoðþjónusta / Sérfræðiráðgjöf og stuðningur inn í skólann/Aðgangur að sérfræðiþjónustu verði tryggður 54,7%

  • Stoðþjónusta / Auka sértæk úrræði/Viðbr.áætlun v.erfiðra nem./Bæta skipulag sérk./Markviss stoðþj. 54,0%

  • Innra starf / Álag á kennara v. námsmats og aukinna skráninga 51,8%

Tækni og húsnæði:

  • Tækni og gögn / Tæki/Tölvur/Nettenging/Símkerfi 66,2%

  • Tækni og gögn / Búnaður 59,7%

  • Húsnæði / Breytingar á húsnæði /Vantar húsnæði/Þrengsli 53,2%

Það er auðvelt að álykta út frá þessum lista og hrista hausinn og draga fram tölur um dýra grunnskóla og fjölda starfsfólks í grunnskólum sem hefur líklega aldrei verið meira. Og þar með draga þá álykun að skólastarf hljóti að vera gott og kennarar ánægðir. En ef ég leyfi mér að lesa á milli línanna og útskýra hvað í rauninni stendur hér þá er það að mínu mati þetta:

  • Tækni er almennt illa nýtt til þess að koma upplýsingum til kennara og starfsfólks í grunnskólum. Fundir eru langir og stefnulausir.

  • Stefna grunnskólanna er almennt óskýr og hefur líklega ekki verið uppfærð eftir að ný aðalnámskrá tók gildi.

  • Kennarar eru þar af leiðandi óöruggir og hafa almennt ekki vald á þeim kennsluaðferðum sem þeir þurfa að nota og skólastjórnendur almennt ekki í stakk búnir til að beita þeirri faglegu leiðsögn sem þeim ber að veita.

  • Stoðþjónustan er einangruð og fjarri kennslustofunni. Í stað þess að kennarar fái faglegan stuðning og hjálp við að útfæra sjónrænt skipulag, eftirfylgni samræmdra prófa og lestrarprófa (og svo framvegis) inni í kennslustofunni og í starfinu þá fer tíminn í fundi og samskipti sem fer fram fjarri kennslustofunni og niðurstaðan nýtist sjaldan daglegu starfi með barninu til bóta.

  • Námsmat hefur verið kynnt sem einangrað fyrirbæri en ekki hlekkur í keðju sem hefst á kröfum um breytta kennsluhætti, einstaklingsmiðað nám og síðan námsmati í kjölfarið. Slík vinna krefst endurskoðunar á stefnu skólans sem skín í gegnum skólanámskrá, námsvísa, kennsluáætlanir og síðast en ekki síst námsmat.

  • Kröfur eru gerðar um tækni í skólastarfi en hvorki tæknin, þekkingin á notkun tækjanna né nettengingar eru til staðar.

  • Húsnæði er ósveigjanlegt og ekki hannað til þess að rúma þá breyttu kennsluhætti sem stefna yfirvalda fer fram á.

  • Kennarar telja sig vera að framkvæma einstaklingsmiðað nám þegar þeir leyfa nemendum að fara í gegnum námsefni á sínum hraða. Þann misskilning þarf að leiðrétta og kennarar kalla eftir hjálp enda örmagna að reyna að nota gamlar aðferðir á nýjan hóp nemenda.

En hér er nú frjálslega farið með. Mikilvægara er að það er ósk mín að á nýju ári fái fleiri skólastjórar svigrúm til þess að leita sér aðstoðar til að koma stuðningnum á gólfið til kennara svo að starfshættir breytist til að starfið megi verða þeim léttara. Kennarar bera flestir hag barnanna fyrir brjósti og vilja umfram allt sjá þau vaxa, en horfumst í augu við að hér þarf að búa til stoðkerfi sem virkar og hefst og endar hjá skólastjórnendum.

Starfsfólk Tröppu ráðgjafar hefur á árinu sinnt því gefandi starfi að aðstoða fræðslustjóra og fræðsluyfirvöld sveitarfélaga, skólastjóra og grunnskólakennara, sérkennara og sérfræðiteymi við að endurskoða aðferðir sínar í takt við nýja menntastefnu og nýja tíma. Það er gefandi og skemmtilegt og verkefnin ærin og árangurinn sýnir sig um leið.

Krafa kennara er eðlileg. Skólarnir og kennararnir eru hryggjastykkið í okkar samfélagi og það ber að virða. Fjárfestum í skólastarfi og starfsháttum skólastjóra og kennara og tryggjum að komið sé til móts við þarfir allra barna og þau megi vaxa og dafna hvert á sinn hátt.

Kristrún Lind Birgisdóttir

Framkvæmdastjóri Ásgarðs


Comments

Vinsælt

Persónumiðað skólastarf fyrir öll börn - Það ER góður skóli

Gæði Ásgarðsskóla, skóla í skýjunum hafa verið staðf est, með ytra mati MMR og auðvitað líka með kerfisbundnu innra mati. Námið í skólanum er í samræmi við stefnu skólans, það er sniðið að persónulegum þörfum nemenda, það er unnið lýðræðislega með nemendum, foreldrum og starfsfólk fær þann stuðning sem þarf og innra mat uppfyllir sett skilyrði. Í Ásgarðsskóla er stefnan skýr. Hún hverfist um allt skólastarfið og birtist á hverjum degi í verkefnum nemenda og kennara. Verkaskipting í skólastjórninni er kannski óvenjuleg að einhverju leyti en uppfyllir samt ströngustu skilyrði. Einn sér um fjármál og rekstur og hefur yfirumsjón með gæðamálum . Annar er skólastjóri nemendanna, starfsfólksins og foreldranna og þriðji stjórnandinn er námskrárstjóri .  Fundir eru skipulagðir með stífri fundaáætlun í hverri viku sem aldrei eru felldir niður. Skýr verkaskipting er líka á milli kennara sem byggja á styrkleikum þeirra og kennarar sitja eins fáa fundi og mögulegt er. Það þýðir ekki að kennara...

Hvað er góður skóli? Gæðastarf í leik- og grunnskólum á mannamáli

Tímamóta ráðstefna um menntamál: „Hvað er góður skóli?“ Gæðastarf í leik- og grunnskólum á mannamáli verður haldin þann 12. apríl næstkomandi í Hofi á Akureyri. Ráðstefnan er ætluð sveitarstjórnarfólki, kennurum, starfsfólki skóla, áhugafólki um skólastarf, foreldrum og nemendum. Dagskráin hefst kl. 09.00 og lýkur um kl. 16.00. Ráðstefnugjaldið er aðeins 3.900 krónur og hægt er að tryggja sér miða hér . Skólaráðgjafaþjónustan Ásgarður stendur fyrir ráðstefnunni. Á ráðstefnunni koma fram kennarar, skólastjórnendur, ráðgjafar og stjórnendur sveitarfélaga sem þekkja vel notkun gæðaviðmiða til þess að efla gæði skólastarfs. Hagnýt ráð og leiðbeiningar á mannamáli sem henta öllum sem vilja auka gæði nútíma skólastarfs. Þetta er einstakt tækifæri fyrir sérfræðinga, kennara, skólastjórnendur, foreldra og nemendur til að koma saman og ræða gæði og mikilvægi menntunar í nútíma samfélagi. Við hvetjum alla áhugasama um gott skólastarf í leik- og grunnskólum á Íslandi til að mæta og taka þátt í þe...

Sænska og norska í stað dönsku fyrir unglingastig - nokkur pláss laus!

  Sænska og norska í stað dönsku  Fyrir nemendur á unglingastigi  Kennsla hefst mánudaginn 26. ágúst kl. 15.00 Við hjá Ásgarði skólaþjónustu höfum verið að reka Tungumálaskóla fyrir Akureyrarbæ undanfarin misseri. Við erum með nokkur laus pláss í sænsku og norsku sem okkur langar að bjóða ykkur að nýta ef þið eruð með nemendur sem ættu að vera í þeim fögum.   Kennsla í norsku og sænsku hefst þann 26. ágúst kl. 15.00 í Tungumálaskólanum sem er fjarskóli fyrir nemendur sem eru undanþegnir dönskunámi. Starfsfólk á vegum skóla og ráðgjafarþjónustunnar Ásgarðs (www.ais.is) sér um kennsluna og alla umsýslu. Tímarnir verða á mánudögum milli klukkan 15.00 og 16.00 fram á vor. Við gerum ráð fyrir að nemendur vinni sjálfstætt á milli kennslustunda og geti vonandi nýtt tímann í skólanum á meðan aðrir nemendur eru í dönsku. Hver nemandi fylgir því skóladagatali sem á við þann skóla sem viðkomandi er skráður í.  Öll kennsla fer fram á netinu sem þýðir að gert er ráð ...