Fjarkennsla á grunnskólastigi
Við hjá Tröppu erum þeirra gæfu aðnjótandi að fá að taka þátt í lífi nokkurra unglinga sem búa í einu af afskekktasta sveitarfélagi landsins en 60% af þeirra kennslu og námi fer fram frá skrifstofunni okkar á Akureyri í rúmlega 500 km fjarlægð frá skólanum þeirra. Á hverjum degi hljóma samræður og glímur daglegra viðfangsefna í litlum sveitarskóla í mínum eyrum. Þvílík forréttindi að vera beintengdur námi og kennslu og þeim krefjandi viðfangsefnum sem kennarar og nemendur taka að sér daglega.
Fjarkennsla fjarlægur draumur
Þetta kann að hljóma eins og að ég sé 100 ára en það er óralangt síðan að ég leiddi hugann að fjarkennslu á grunnskólastigi, fyrst sem skólastjóri á Flateyri í kringum síðustu aldamót, en þá dreymdi mig um að komast í samstarf og samvinnu við aðra skóla og hafa aðgang að tækni til að geta boðið nemendum upp á hágæða stærðfræðikennslu, svo dæmi sé tekið. Ég var mjög meðvituð um að ég sjálf væri alls ekki besti kosturinn þegar kæmi að því að kenna nemendum mínum stærðfræði en það var ekki tæknilega mögulegt að koma góðri stærðfræðikennslu inn til nemenda minna á Flateyri á þeim tíma. Netsamband var langt frá því nægilega gott til þess að koma myndefni á milli staða, sérstakur fjarfundarbúnaður var allt of dýr og efni á borð við Kahn Academy, Youtube eða Stoðkennarann var ekki í boði. Við vorum ein í myrkrinu á milli hárra fjalla með námsbækur frá Ríkisútgáfu námsbóka einar að vopni.
Síðar var ég þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að taka þátt í að halda utan um fjarkennsluverkefni sem fóstruð voru hjá menntamálaráðuneytinu og tengdust nokkrum sveitarfélögum á Vestfjörðum. Þetta var nokkrum árum síðar. Sama staða var uppi, fjarbúnaður var dýr og takmarkaðar leiðir voru í boði fyrir kennara til þess að vera í virku sambandi við nemendur á fjarenda. Starfið fólst yfirleitt í því að senda út kennslu frá einum stað til annars. Nemendur á fjarenda voru staddir í öðru rými en að öðru leyti var námsefnið og viðfangsefnin þau sömu og við höfðum aðgang að á Flateyri nokkrum árum áður. Munurinn fólst í því að menntamálaráðuneytið tók þátt í kostnaði og greiddi fyrir búnaðinn og ráðgjöfina, ef ég man rétt.
Tækifæri á 21. öldinni
Á þessum u.þ.b. 15 árum hefur mikið vatn runnið til sjávar í tækniiðnaðinum. Nú er hægt að komast í fjarsamband við skóla, nemendur og kennara með hjálp svo margra forrita að við höfum varla lengur tölu á þeim; Kara, Skype, Messenger, Whatsap, Viber, Facetime, Zoom, Google, o.s.frv. Mörg þessara forrita eru ókeypis og eru einföld í uppsetningu. Nemendur, kennarar og skólastjórar eiga eða hafa aðgang að snjallsímum og tölvum. Auk þess býr internetið yfir nánast ótakmörkuðu efni af forritum og upplýsingum.
En er þá almenn gróska í fjarkennslu og námi á grunnskólastigi?
Svarið er nei. Ég veit ekki til þess að það sé nokkurt annað fjarkennsluverkefni í gangi á Íslandi í dag, a.m.k. ekki á grunnskólastigi. Ég veit ekki til þess að yfirvöld menntamála, annað en viðkomandi sveitarfélag sem við sinnum daglega, séu að fjárfesta í fjarnámi og -kennslu. Loksins hefur tæknin náð svo langt að auðvelt er koma kennslu og námi til skila með fjölbreyttum hætti til nemenda í dreifðum byggðum landsins og renna þannig styrkum stoðum undir það góða starf sem annars er unnið í litlum skólum. Nemendur okkar eru lifandi dæmi um það.
Ég vona að það sé hrein og klár yfirsýn að fjarnámi og kennslu á grunnskólastigi sé ekki sinnt sem skyldi en bendi hér góðfúslega á að hér er tækifæri og lag til þess að gera betur í fjarkennslumálum.
Kristrún Lind Birgisdóttir
Framkvæmdastjóri Ásgarðs
Áður birt á Trappa.is fyrir nafnabreytingu
Comments
Post a Comment