Skip to main content

Fjarkennsla á grunnskólastigi

 

Fjarkennsla á grunnskólastigi

Við hjá Tröppu erum þeirra gæfu aðnjótandi að fá að taka þátt í lífi nokkurra unglinga sem búa í einu af afskekktasta sveitarfélagi landsins en 60% af þeirra kennslu og námi fer fram frá skrifstofunni okkar á Akureyri í rúmlega 500 km fjarlægð frá skólanum þeirra. Á hverjum degi hljóma samræður og glímur daglegra viðfangsefna í litlum sveitarskóla í mínum eyrum. Þvílík forréttindi að vera beintengdur námi og kennslu og þeim krefjandi viðfangsefnum sem kennarar og nemendur taka að sér daglega.

Fjarkennsla fjarlægur draumur

Þetta kann að hljóma eins og að ég sé 100 ára en það er óralangt síðan að ég leiddi hugann að fjarkennslu á grunnskólastigi, fyrst sem skólastjóri á Flateyri í kringum síðustu aldamót, en þá dreymdi mig um að komast í samstarf og samvinnu við aðra skóla og hafa aðgang að tækni til að geta boðið nemendum upp á hágæða stærðfræðikennslu, svo dæmi sé tekið. Ég var mjög meðvituð um að ég sjálf væri alls ekki besti kosturinn þegar kæmi að því að kenna nemendum mínum stærðfræði en það var ekki tæknilega mögulegt að koma góðri stærðfræðikennslu inn til nemenda minna á Flateyri á þeim tíma. Netsamband var langt frá því nægilega gott til þess að koma myndefni á milli staða, sérstakur fjarfundarbúnaður var allt of dýr og efni á borð við Kahn Academy, Youtube eða Stoðkennarann var ekki í boði. Við vorum ein í myrkrinu á milli hárra fjalla með námsbækur frá Ríkisútgáfu námsbóka einar að vopni.


Síðar var ég þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að taka þátt í að halda utan um fjarkennsluverkefni sem fóstruð voru hjá menntamálaráðuneytinu og tengdust nokkrum sveitarfélögum á Vestfjörðum. Þetta var nokkrum árum síðar. Sama staða var uppi, fjarbúnaður var dýr og takmarkaðar leiðir voru í boði fyrir kennara til þess að vera í virku sambandi við nemendur á fjarenda. Starfið fólst yfirleitt í því að senda út kennslu frá einum stað til annars. Nemendur á fjarenda voru staddir í öðru rými en að öðru leyti var námsefnið og viðfangsefnin þau sömu og við höfðum aðgang að á Flateyri nokkrum árum áður. Munurinn fólst í því að menntamálaráðuneytið tók þátt í kostnaði og greiddi fyrir búnaðinn og ráðgjöfina, ef ég man rétt.  

Tækifæri á 21. öldinni

Á þessum u.þ.b. 15 árum hefur mikið vatn runnið til sjávar í tækniiðnaðinum. Nú er hægt að komast í fjarsamband við skóla, nemendur og kennara með hjálp svo margra forrita að við höfum varla lengur tölu á þeim; Kara, Skype, Messenger, Whatsap, Viber, Facetime, Zoom, Google, o.s.frv. Mörg þessara forrita eru ókeypis og eru einföld í uppsetningu. Nemendur, kennarar og skólastjórar eiga eða hafa aðgang að snjallsímum og tölvum. Auk þess býr internetið yfir nánast ótakmörkuðu efni af forritum og upplýsingum.

En er þá almenn gróska í fjarkennslu og námi á grunnskólastigi?

Svarið er nei. Ég veit ekki til þess að það sé nokkurt annað fjarkennsluverkefni í gangi á Íslandi í dag, a.m.k. ekki á grunnskólastigi. Ég veit ekki til þess að yfirvöld menntamála, annað en viðkomandi sveitarfélag sem við sinnum daglega, séu að fjárfesta í fjarnámi og -kennslu. Loksins hefur tæknin náð svo langt að auðvelt er koma kennslu og námi  til skila með fjölbreyttum hætti til nemenda í dreifðum byggðum landsins og renna þannig styrkum stoðum undir það góða starf sem annars er unnið í litlum skólum. Nemendur okkar eru lifandi dæmi um það.

Ég vona að það sé hrein og klár yfirsýn að fjarnámi og kennslu á grunnskólastigi sé ekki sinnt sem skyldi en bendi hér góðfúslega á að hér er tækifæri og lag til þess að gera betur í fjarkennslumálum.

Kristrún Lind Birgisdóttir

Framkvæmdastjóri Ásgarðs 


Áður birt á Trappa.is fyrir nafnabreytingu


Comments

Vinsælt

Persónumiðað skólastarf fyrir öll börn - Það ER góður skóli

Gæði Ásgarðsskóla, skóla í skýjunum hafa verið staðf est, með ytra mati MMR og auðvitað líka með kerfisbundnu innra mati. Námið í skólanum er í samræmi við stefnu skólans, það er sniðið að persónulegum þörfum nemenda, það er unnið lýðræðislega með nemendum, foreldrum og starfsfólk fær þann stuðning sem þarf og innra mat uppfyllir sett skilyrði. Í Ásgarðsskóla er stefnan skýr. Hún hverfist um allt skólastarfið og birtist á hverjum degi í verkefnum nemenda og kennara. Verkaskipting í skólastjórninni er kannski óvenjuleg að einhverju leyti en uppfyllir samt ströngustu skilyrði. Einn sér um fjármál og rekstur og hefur yfirumsjón með gæðamálum . Annar er skólastjóri nemendanna, starfsfólksins og foreldranna og þriðji stjórnandinn er námskrárstjóri .  Fundir eru skipulagðir með stífri fundaáætlun í hverri viku sem aldrei eru felldir niður. Skýr verkaskipting er líka á milli kennara sem byggja á styrkleikum þeirra og kennarar sitja eins fáa fundi og mögulegt er. Það þýðir ekki að kennara...

Hvað er góður skóli? Gæðastarf í leik- og grunnskólum á mannamáli

Tímamóta ráðstefna um menntamál: „Hvað er góður skóli?“ Gæðastarf í leik- og grunnskólum á mannamáli verður haldin þann 12. apríl næstkomandi í Hofi á Akureyri. Ráðstefnan er ætluð sveitarstjórnarfólki, kennurum, starfsfólki skóla, áhugafólki um skólastarf, foreldrum og nemendum. Dagskráin hefst kl. 09.00 og lýkur um kl. 16.00. Ráðstefnugjaldið er aðeins 3.900 krónur og hægt er að tryggja sér miða hér . Skólaráðgjafaþjónustan Ásgarður stendur fyrir ráðstefnunni. Á ráðstefnunni koma fram kennarar, skólastjórnendur, ráðgjafar og stjórnendur sveitarfélaga sem þekkja vel notkun gæðaviðmiða til þess að efla gæði skólastarfs. Hagnýt ráð og leiðbeiningar á mannamáli sem henta öllum sem vilja auka gæði nútíma skólastarfs. Þetta er einstakt tækifæri fyrir sérfræðinga, kennara, skólastjórnendur, foreldra og nemendur til að koma saman og ræða gæði og mikilvægi menntunar í nútíma samfélagi. Við hvetjum alla áhugasama um gott skólastarf í leik- og grunnskólum á Íslandi til að mæta og taka þátt í þe...

Sænska og norska í stað dönsku fyrir unglingastig - nokkur pláss laus!

  Sænska og norska í stað dönsku  Fyrir nemendur á unglingastigi  Kennsla hefst mánudaginn 26. ágúst kl. 15.00 Við hjá Ásgarði skólaþjónustu höfum verið að reka Tungumálaskóla fyrir Akureyrarbæ undanfarin misseri. Við erum með nokkur laus pláss í sænsku og norsku sem okkur langar að bjóða ykkur að nýta ef þið eruð með nemendur sem ættu að vera í þeim fögum.   Kennsla í norsku og sænsku hefst þann 26. ágúst kl. 15.00 í Tungumálaskólanum sem er fjarskóli fyrir nemendur sem eru undanþegnir dönskunámi. Starfsfólk á vegum skóla og ráðgjafarþjónustunnar Ásgarðs (www.ais.is) sér um kennsluna og alla umsýslu. Tímarnir verða á mánudögum milli klukkan 15.00 og 16.00 fram á vor. Við gerum ráð fyrir að nemendur vinni sjálfstætt á milli kennslustunda og geti vonandi nýtt tímann í skólanum á meðan aðrir nemendur eru í dönsku. Hver nemandi fylgir því skóladagatali sem á við þann skóla sem viðkomandi er skráður í.  Öll kennsla fer fram á netinu sem þýðir að gert er ráð ...