Skip to main content

Kennslustofan; Hólmavík – Akureyri – Hofgarður – New York

 

Kennslustofan; Hólmavík – Akureyri – Hofgarður – New York

Við í ráðgjafahópi Ásgarðs (áður Tröppu) erum svo heppin að vera með fjölbreytta innsýn inn í skólastarf – allt frá stefnumótun niður í hjartað á öllu skólastarfi – kennsluna sjálfa. Í vikunni átti sér stað tímamóta verkefni með skemmtilegri samvinnu milli unglinga tveggja lítilla skóla á landsbyggðinni; Grunnskólans í Hofgarði í Öræfasveit og Grunnskólans í Hólmavík. Þeir 672 kílómetrar sem skilja þessa tvo skóla að voru engin hindrun. Nemendurnir unnu í þremur hópum, tveim á Hólmavík og einum í Hofgarði. Umræðuefnið var 9/11 þar sem tímasetning bauð vissulega upp á það.

Kennsluaðferðin var leitar- og uppgötvunarnám þar sem unnið var eftir SOLE- leiðbeiningunum en þar er gert ráð fyrir því að spurning eða spurningar stjórni ferðinni í eina kennslustund. Í þessu tilviki höfðu kennararnir komið sér saman um að spurningin væri “Hvað gerðist 11. september 2001 og hvers vegna?”. Krakkarnir fengu 40 mínútur til þess að vinna úr spurningunni og áttu að taka saman kynningu að vinnu lokinni.  Þegar upplýsingaöflun var lokið og kynningarnar tilbúnar “hittust” hóparnir á fjarfundi þ.e. Hofgarðs nemendur í sínum skóla, þeirra fjarkennari á Akureyri og Hólmavíkur nemendur og kennarar á Hólmavík. Í gegnum fjarfundabúnaðinn Zoom.us kynntu hóparnir þrír niðurstöður sínar fyrir hinum hópunum. Að því loknu var boðið upp á spurningar og umræður um verkefnið. Í spjallinu lék nemendum í Hólmavík forvitni á að vita af hverju nemendur og kennari Hofgarðs voru ekki á sama landshlutanum, sem bauð upp á umræður um tæknimál og lausnir varðandi skort á kennurum á landsbyggðinni þar sem unglingarnir sjálfir gerðu grein fyrir tilurð verkefnisins og ávinningi.

Markmið verkefnisins, fyrir utan að samþætta ensku, samfélagsgreinar, upplýsingamennt og framsögn var að víkka sjóndeildarhring nemendanna og gefa þeim kost á að vinna með fleiri félögum en þeim sem eru með þeim i skóla.

Verkefnið tókst vel og lýstu nemendur yfir áhuga á áframhaldandi samstarfi milli nemenda hópanna. Hver  veit nema að næst fáum við til liðs við okkur einhvern frá New York! Það væri engin fyrirstaða.

Til gamans látum við fylgja með sýnishorn af leiðarljósi við skipulag kennslustundarinnar (sjá hér fyrir neðan). Við njótum þess að útfæra hæfnimiðað nám og höfum grunnþættina ávallt að leiðarljósi.

Góðar stundir

Björk Pálmadóttir kennari og ráðgjafi í samstarfi við Esther Ösp Valdimarsdóttir á Hólmavík og krakkarnir á unglingastigi í Hofgarði og á Hólmavík.

Nánari kennslufræðileg útlistun;

Hér var grunnþátturinn lýðræði og mannréttindi hafður að leiðarljósi.

Lykilhæfni (sérstök áhersla):

  • Tjáning og miðlun

  • Nýting miðla og upplýsinga

  • Ábyrgð og mat á eigin námi

Kennsluaðferðir og skipulag

  • Leitar- og uppgötvunaraðferðir

  • Mikið stýrt af kennara

Hæfniviðmið Aðalnámskrár:

  • Unnið er með hæfniviðmið samfélagsgreina sem falla undir aðallega undir félagsheim.

  • Hæfniviðmið tungumála/ensku sem falla undir; talað mál, lestur, hlustun og áhorf.

  • Hæfniviðmið í upplýsinga- og tæknimennt sem falla undir upplýsingaöflun og úrvinnsla, tækni og búnað.

Hópaskipting:

  • Hópavinna- kennari parar saman

Lokaafurð lotunnar:

  • Slæðusýning, frásögn

Kynning:

  • Nemendur halda kynningu.

Námsmat:

  • Leiðsagnarmat

Mat á kennslustundinni:

  • Kynningar gengu vel og allir voru með á einhvern hátt.

  • Hljóðið hefði mátt vera betra. Kennarar athuga hvort hægt sé að kaupa hljóðnema til að standa á borðinu.

  • Krakkarnir á Hólmavík eru að læra á Zoom – næst væri gaman ef Hofgarðsbörn myndu kenna þeim á að setja slæðukynningar á skjáinn og deila skjánum.


Comments

Vinsælt

Persónumiðað skólastarf fyrir öll börn - Það ER góður skóli

Gæði Ásgarðsskóla, skóla í skýjunum hafa verið staðf est, með ytra mati MMR og auðvitað líka með kerfisbundnu innra mati. Námið í skólanum er í samræmi við stefnu skólans, það er sniðið að persónulegum þörfum nemenda, það er unnið lýðræðislega með nemendum, foreldrum og starfsfólk fær þann stuðning sem þarf og innra mat uppfyllir sett skilyrði. Í Ásgarðsskóla er stefnan skýr. Hún hverfist um allt skólastarfið og birtist á hverjum degi í verkefnum nemenda og kennara. Verkaskipting í skólastjórninni er kannski óvenjuleg að einhverju leyti en uppfyllir samt ströngustu skilyrði. Einn sér um fjármál og rekstur og hefur yfirumsjón með gæðamálum . Annar er skólastjóri nemendanna, starfsfólksins og foreldranna og þriðji stjórnandinn er námskrárstjóri .  Fundir eru skipulagðir með stífri fundaáætlun í hverri viku sem aldrei eru felldir niður. Skýr verkaskipting er líka á milli kennara sem byggja á styrkleikum þeirra og kennarar sitja eins fáa fundi og mögulegt er. Það þýðir ekki að kennara...

Hvað er góður skóli? Gæðastarf í leik- og grunnskólum á mannamáli

Tímamóta ráðstefna um menntamál: „Hvað er góður skóli?“ Gæðastarf í leik- og grunnskólum á mannamáli verður haldin þann 12. apríl næstkomandi í Hofi á Akureyri. Ráðstefnan er ætluð sveitarstjórnarfólki, kennurum, starfsfólki skóla, áhugafólki um skólastarf, foreldrum og nemendum. Dagskráin hefst kl. 09.00 og lýkur um kl. 16.00. Ráðstefnugjaldið er aðeins 3.900 krónur og hægt er að tryggja sér miða hér . Skólaráðgjafaþjónustan Ásgarður stendur fyrir ráðstefnunni. Á ráðstefnunni koma fram kennarar, skólastjórnendur, ráðgjafar og stjórnendur sveitarfélaga sem þekkja vel notkun gæðaviðmiða til þess að efla gæði skólastarfs. Hagnýt ráð og leiðbeiningar á mannamáli sem henta öllum sem vilja auka gæði nútíma skólastarfs. Þetta er einstakt tækifæri fyrir sérfræðinga, kennara, skólastjórnendur, foreldra og nemendur til að koma saman og ræða gæði og mikilvægi menntunar í nútíma samfélagi. Við hvetjum alla áhugasama um gott skólastarf í leik- og grunnskólum á Íslandi til að mæta og taka þátt í þe...

Sænska og norska í stað dönsku fyrir unglingastig - nokkur pláss laus!

  Sænska og norska í stað dönsku  Fyrir nemendur á unglingastigi  Kennsla hefst mánudaginn 26. ágúst kl. 15.00 Við hjá Ásgarði skólaþjónustu höfum verið að reka Tungumálaskóla fyrir Akureyrarbæ undanfarin misseri. Við erum með nokkur laus pláss í sænsku og norsku sem okkur langar að bjóða ykkur að nýta ef þið eruð með nemendur sem ættu að vera í þeim fögum.   Kennsla í norsku og sænsku hefst þann 26. ágúst kl. 15.00 í Tungumálaskólanum sem er fjarskóli fyrir nemendur sem eru undanþegnir dönskunámi. Starfsfólk á vegum skóla og ráðgjafarþjónustunnar Ásgarðs (www.ais.is) sér um kennsluna og alla umsýslu. Tímarnir verða á mánudögum milli klukkan 15.00 og 16.00 fram á vor. Við gerum ráð fyrir að nemendur vinni sjálfstætt á milli kennslustunda og geti vonandi nýtt tímann í skólanum á meðan aðrir nemendur eru í dönsku. Hver nemandi fylgir því skóladagatali sem á við þann skóla sem viðkomandi er skráður í.  Öll kennsla fer fram á netinu sem þýðir að gert er ráð ...