Kennslustofan; Hólmavík – Akureyri – Hofgarður – New York
Við í ráðgjafahópi Ásgarðs (áður Tröppu) erum svo heppin að vera með fjölbreytta innsýn inn í skólastarf – allt frá stefnumótun niður í hjartað á öllu skólastarfi – kennsluna sjálfa. Í vikunni átti sér stað tímamóta verkefni með skemmtilegri samvinnu milli unglinga tveggja lítilla skóla á landsbyggðinni; Grunnskólans í Hofgarði í Öræfasveit og Grunnskólans í Hólmavík. Þeir 672 kílómetrar sem skilja þessa tvo skóla að voru engin hindrun. Nemendurnir unnu í þremur hópum, tveim á Hólmavík og einum í Hofgarði. Umræðuefnið var 9/11 þar sem tímasetning bauð vissulega upp á það.
Kennsluaðferðin var leitar- og uppgötvunarnám þar sem unnið var eftir SOLE- leiðbeiningunum en þar er gert ráð fyrir því að spurning eða spurningar stjórni ferðinni í eina kennslustund. Í þessu tilviki höfðu kennararnir komið sér saman um að spurningin væri “Hvað gerðist 11. september 2001 og hvers vegna?”. Krakkarnir fengu 40 mínútur til þess að vinna úr spurningunni og áttu að taka saman kynningu að vinnu lokinni. Þegar upplýsingaöflun var lokið og kynningarnar tilbúnar “hittust” hóparnir á fjarfundi þ.e. Hofgarðs nemendur í sínum skóla, þeirra fjarkennari á Akureyri og Hólmavíkur nemendur og kennarar á Hólmavík. Í gegnum fjarfundabúnaðinn Zoom.us kynntu hóparnir þrír niðurstöður sínar fyrir hinum hópunum. Að því loknu var boðið upp á spurningar og umræður um verkefnið. Í spjallinu lék nemendum í Hólmavík forvitni á að vita af hverju nemendur og kennari Hofgarðs voru ekki á sama landshlutanum, sem bauð upp á umræður um tæknimál og lausnir varðandi skort á kennurum á landsbyggðinni þar sem unglingarnir sjálfir gerðu grein fyrir tilurð verkefnisins og ávinningi.
Markmið verkefnisins, fyrir utan að samþætta ensku, samfélagsgreinar, upplýsingamennt og framsögn var að víkka sjóndeildarhring nemendanna og gefa þeim kost á að vinna með fleiri félögum en þeim sem eru með þeim i skóla.
Verkefnið tókst vel og lýstu nemendur yfir áhuga á áframhaldandi samstarfi milli nemenda hópanna. Hver veit nema að næst fáum við til liðs við okkur einhvern frá New York! Það væri engin fyrirstaða.
Til gamans látum við fylgja með sýnishorn af leiðarljósi við skipulag kennslustundarinnar (sjá hér fyrir neðan). Við njótum þess að útfæra hæfnimiðað nám og höfum grunnþættina ávallt að leiðarljósi.
Góðar stundir
Björk Pálmadóttir kennari og ráðgjafi í samstarfi við Esther Ösp Valdimarsdóttir á Hólmavík og krakkarnir á unglingastigi í Hofgarði og á Hólmavík.
Nánari kennslufræðileg útlistun;
Hér var grunnþátturinn lýðræði og mannréttindi hafður að leiðarljósi.
Lykilhæfni (sérstök áhersla):
Tjáning og miðlun
Nýting miðla og upplýsinga
Ábyrgð og mat á eigin námi
Kennsluaðferðir og skipulag
Leitar- og uppgötvunaraðferðir
Mikið stýrt af kennara
Hæfniviðmið Aðalnámskrár:
Unnið er með hæfniviðmið samfélagsgreina sem falla undir aðallega undir félagsheim.
Hæfniviðmið tungumála/ensku sem falla undir; talað mál, lestur, hlustun og áhorf.
Hæfniviðmið í upplýsinga- og tæknimennt sem falla undir upplýsingaöflun og úrvinnsla, tækni og búnað.
Hópaskipting:
Hópavinna- kennari parar saman
Lokaafurð lotunnar:
Slæðusýning, frásögn
Kynning:
Nemendur halda kynningu.
Námsmat:
Leiðsagnarmat
Mat á kennslustundinni:
Kynningar gengu vel og allir voru með á einhvern hátt.
Hljóðið hefði mátt vera betra. Kennarar athuga hvort hægt sé að kaupa hljóðnema til að standa á borðinu.
Krakkarnir á Hólmavík eru að læra á Zoom – næst væri gaman ef Hofgarðsbörn myndu kenna þeim á að setja slæðukynningar á skjáinn og deila skjánum.
Comments
Post a Comment