Drepur skriftarkennsla sköpun?
Ég velti þessu fyrir mér þegar ég horfi á meðfylgjandi mynd. Sonur minn hann Tómas hóf skólagöngu sína þegar hann var 5 ára. Hann var þá eins og flest börn á hans aldri búinn að fara í gegnum leikskóla þar sem lögð var áhersla á að kynnast helstu hljóðum, bókstöfum og tölustöfum – allt í gegnum leik í afslöppuðu og kærleiksríku umhverfi. Við bjuggum á þessum tíma í landi þar sem töluð var enska.
Þegar hann hóf grunnskólagöngu sína 5 ára var okkur foreldrunum gerð grein fyrir því að í þessum skóla væri tungumálið nánast heildstætt. Einn af mikilvægum grunnþáttum skólagöngunnar væri sköpun og þannig væri mikilvægt að þau fengju að skapa hver á sinn hátt og vaxa sem einstaklingar – hvert á sinn hátt. Í þessu skólastarfi fór öll vinna barnanna fram í stílabókum eða á óútfylltum skjölum í tölvunni. Við foreldrarnir vorum beðin um að kenna ekki skrift sérstaklega og að kaupa ekki skriftarbækur – heldur miklu frekar að hvetja Tómas til að skrifa, halda dagbók – skrifa um áhugamál sín eða skrifa ömmu sinni og afa eða hvað sem er. Hann myndi smán saman læra að skrifa læsilega. Áherslan skyldi vera á framfarir.
Ári seinna hóf Tómas nám í íslenskum grunnskóla – þá í 1. bekk, sem sagt – hann hóf grunnskólagönguna aftur – nú ári seinna. Rétt er að taka fram að Tómas er tvítyngdur og hefur alltaf verið jafnvígur á báðum tungumálum – ensku og íslensku. Ég átti bágt með að trúa mínum eigin augum þegar á 100 daga hátíðinni – eftir eitthundrað daga í fyrsta bekk – að sonur minn skrifaði þrjú orð þegar hann var beðinn um að skrifa sögu um bónda sem átti 100 kindur. Hann skrifaði “Hann rak 100…” – ekkert annað- en skrifað með fullkominni ítalskri skrift – lykkjurnar allar á sínum stað. Ég fór að sitja kennslustundir til að fylgjast með aðferðunum og kom fljótlega auga á að ætlast var til þess að börnin drægju “rétt” til stafs. Ég varð hissa þegar ég tók eftir að það tíðkaðist að kennarinn strokaði út stafina ef börnin gerðu “mistök” við stafagerðina, þ.e. ef stafurinn var ekki akkúrat á línunni þá strokaði kennarinn út og lét barnið gera aðra tilraun. Þegar 100 dagar voru liðnir af skólanum var stafainnlögnin enn í gangi þar sem öll börnin unnu með staka stafi og hljóð hvort sem að þau kynnu að lesa eða ekki, þ.e. hvorki einstaklingsmiðuð né heildstæð nálgun að mínu mati.
Ég tók saman sýnishorn af fyrstu 100 dögunum í móðurmálsbókinni í 1. bekk þegar hann var 5 ára – og stillti upp á móti sýnishorni af móðurmálskennslunni í 1. bekk þegar hann var 6 ára.
Hvað finnst ykkur – drap skriftarkennslan og áherslan á stafainnlögn hæfileika Tómasar til að skrifa og skapa sögur?
Ég læt fylgja með nokkrar hugmyndir um “Ritun til náms” úr bókinni Skapandi skóli – Handbók um fjölbreytta kennsluhætti og stafræna miðlun.
Ritun til náms; Writing to learn
Flæðiskrif
Kraftskrif
Skilgreining hugtaka
Samantekt
Lykilorð
Ljóð
Mynd verður saga
Búningaritun
Leikmunaritun
Leikritun
Hópur vinnur saman
Best kveðjur,
Kristrún Lind Birgisdóttir framkvæmdastjóri
Áður birt á trappa.is fyrir nafnabreytingu
Comments
Post a Comment