Lýðræði og mannréttindi – tíu beinagrindir að stigvaxandi þemaverkefnum – og nokkrar kennsluáætlanir
Lýðræði og mannréttindi – tíu beinagrindir að stigvaxandi þemaverkefnum – og nokkrar kennsluáætlanir
Trappa ráðgjöf (nú Ásgarður) og Menntamálastofnun ásamt þremur skólum (Grunnskólanum á Hólmavík, Hörðuvallaskóla og Síðuskóla) hófu vinnu í lok síðasta árs við að gera grunnþáttinn lýðræði og mannréttindi sýnilegri í skólastarfi. Einn liður í því var að við myndum skrifa saman kennsluáætlanir að tíu þemaverkefnum undir grunnþættinum og gera þannig tilraun til þess að leggja fram að minnsta kosti eitt gott dæmi um hvernig útfæra má einstaklingsmiðað nám með viðkomandi grunnþátt að leiðarljósi. En margir af okkar kennurum og stjórnendum hafa einmitt kallað eftir því að fá að minnsta kosti eitt gott dæmi um útfærslur á einstaklingsmiðuðu námi í anda Aðalnámskrár.
Því miður var skrúfað fyrir þann hluta verkefnisins í miðju kafi en eftir standa beinagrindur að tíu þemaverkefnum eftir bekkjum sem upplagt er að nýta sem grunn þar sem íslenska, samfélagsfræði og upplýsinga og tæknimennt gætu verið samþætt.
Hér er skjalið – ekki hika við að nýta ykkur það sem grunn að þemaverkefnum. Við ímynduðum okkur að verkefnin gætu náð yfir einhvern tíma – 4-6 vikur til dæmis. Það er reyndar eitt dæmi að kennsluáætlun sem fylgir þemanu “Heimurinn batnandi fer” sem upplagt er að nýta fyrir til dæmis 3. eða 4. bekk og jafnvel yngri. Á óveðursdegi í vetur munum við klára ítarlegri kennsluáætlanir – en þangað til er öllum velkomið að gera skjalið að sínu.
Við erum að safna saman því sem við eigum til af dæmum um kennsluáætlanir. Upphaflega hófum við að taka saman dæmi til þess að auðvelda kennurunum okkar sem við sinnum í sérfræðiráðgjöfinni. Öllum er velkomið að sækja skjölin og gera að sínu. Við erum að reyna að auðvelda kennurum að gera námið einstaklingsmiðaðra, með skapandi starfsháttum með því að leggja fram drög að hugmyndum – kennararnir taka svo dæmin, gera að sínum og koma í framkvæmd. Safnast þegar saman kemur.
Í gegnum verkefnið með Menntamálastofnun kynntumst við meistaranum Önnu Maríu Kortsen Þorkelsdóttur – hún heldur úti síðunni kortsen.is þar sem hún safnar saman öllum sínum verkum og við bendum mjög gjarnan á. Ef við öll hjálpumst að við að deila efni til að auðvelda kennurum landsins að bjóða upp á fjölbreytt og spennandi einstaklingsmiðað nám – með áherslu á nemendalýðræði og þátttöku – þá erum við í góðum málum.
Kristrún Lind Birgisdóttir
Sérfræðingur í kennsluaðferðum og framkvæmdastjóri Tröppu ráðgjafar
Áður birt á trappa.is
Comments
Post a Comment