Fjársjóðsleit - að bregðast við skólaforðun og bráðgerum nemendum
6 vikna nemendastýrðar lotur þar sem nemendur vinna persónuleg heildstæð verkefni. Hverri lotu lýkur með nemendastýrðu foreldraviðtali. Við lok hverrar lotu metur nemandinn í samráði við kennara og foreldra hvert nemandinn stefnir, hvort hann vilji fara í aðra lotu - aftur í skólann sinn eða halda áfram að vinna að því að ljúka grunnskólanum í samvinnu við Ásgarð. Meginmarkmið er að nemandinn fari aftur í sinn heimaskóla og ljúki námi þar eða útskrifist þaðan.
Lotan hefst á viðtali við kennara og náms- og starfsráðgjafa og kortlagningu styrkleika viðkomandi. Í upphafi hverrar lotu gera nemandi og kennari stöðumat (KVL) og við lok hverrar lotu er farið yfir framfarir og nemandinn orðar þá nýju hæfni og þekkingu sem hann hefur tileinkað sér.
Námið fer alfarið fram á netinu nema að nemandinn sæki einhverja tíma í skólanum þá heldur það áfram. Nemandinn vinnur heima og þarf að hafa aðgang að tölvu með myndavél og helst góðri vinnuaðstöðu. Nemandinn vinnur að jafnaði með kennara og/eða öðrum nemendum á skjánum í tvær klukkustundir á dag, virka daga vikunnar. Nemandinn fylgir annars almennt skóladagatali þess skóla sem viðkomandi nemandi er skráður í. Almennt er gert ráð fyrir því að sá tími sé á morgnana en fyrirkomulagið er sveigjanlegt og unnið í samráði við nemendur.
Hópastærðin er frá 1 og upp í 8 nemendur í senn sem stefnt er á að vinni saman og í sitthvoru lagi að verkefnum sínum. Nemendur eru undir öllum kringumstæðum skráðir í heimaskólann sinn. Samkomulag er gert á milli Ásgarðs og skólans sem greiða fyrir þjónustuna - í einhverjum tilvikum greiðir félagsþjónustan og stundum foreldrar.
Áherslur Ásgarðs
Í Ásgarði er skólasamfélag sem vinnur að því með nemendum sínum og fjölskyldum þeirra að þeir verði færir um að vera virkir þegnar í nútímasamfélagi og geti lagt sitt af mörkum við að bæta heiminn.
Í Ásgarði gera allir alltaf sitt besta. Við sýnum hvert öðru virðingu og látum til okkar taka við að gera umhverfi okkar og heiminn allan betri.
Stefna Ásgarðs er að nemendur og starfsfólk:
Séu forvitin og njóti þess að kafa ofan í viðfangsefni sín
Aðlagist síbreytilegum aðstæðum
Gefist ekki upp
Beri umhyggju fyrir sér og öðrum
Ástundi góð samskipti og sýni virðingu í einu og öllu
Sýni tillitsemi við hvert annað og alla í umhverfi sínu
Geti unnið sjálfstætt og með öðrum
Í Ásgarði er sérstaklega lagt upp með að líta á heiminn sem eina heild, bera virðingu fyrir íbúum alheimsþorpsins, menningu allra, stjórnmálum, tungumálum og listum.
Kennslufræðileg stefna
Starfsfólk Ásgarðs hefur sett sér það markmið að bjóða upp á framúrskarandi námskeið og tryggja meðal annars að fjölbreyttir kennsluhættir og námsmat birtist með skýrum hætti í starfi með nemendum. Kennarar hafa sett sér viðmið um hlutfall mismunandi kennsluhátta og námsmats til að mæta sem best fjölbreyttum þörfum nemenda.
Í Ásgarði hefur verið ákveðið að byggja á að mestu á aðferðum IMYC námskrárinnar þar sem námsferlið byggir á samþættingu námsgreina og eftirfarandi rannsóknarferli. Námið grundvallast á þemum og samþættingu námsgreina.
Comments
Post a Comment