Það var gaman að fylgjast með Silfrinu á sunnudaginn, menntamálin í forgrunni og nú að miklu leyti vegna skýrslu sem kom út fyrir ári síðan frá Evrópumiðstöð um nám án aðgreiningar og sérþarfa. Mjög merkilegt plagg sem nú er mikið fjallað um því skýrslan kom nýlega út á íslensku (en skýrslan kom út á ensku fyrir ári síðan). Þorbjörg Helga stóð sig frábærlega og náði að fara vel yfir þann flókna vanda sem blasir við. En mig langar að grípa boltann og halda aðeins áfram með umræðuna.
Ég hef tekið eftir því að margir halda að skýrslan um nám án aðgreiningar sé einhverskonar samantekt frá PISA en það er alls ekki rétt. Um er að ræða risa úttekt sem tók tvö ár í framkvæmd, hófst árið 2015 og lauk með útgáfu skýrslunnar í byrjun síðasta árs. Auðvitað er vísað í niðurstöður PISA en þetta er miklu viðameiri úttekt sem byggir á fjölda skólaheimsókna, viðtala og spurningalista sem lagðir voru fyrir alla hagsmunaaðila og öll skólastig. Ég hvet ykkur til að lesa! En megin áherslan við úttektina var að kanna hversu árangursrík innleiðing menntastefnu ríkisins um skóla án aðgreiningar hefði verið.
Það virðist hafa farið framhjá flestum að í ágúst síðastliðunum var einmitt haldin ráðstefna í Reykjavík þar sem fjallað var um umrædda úttekt Evrópumiðstöðvar en með því að smella á hlekkinn er hægt að hlusta á þá ráðstefnu og fylgjast með því þegar aðgerðaáætlun um viðbrögð við skýrslunni var kynnt af þáverandi menntamálaráðherra. Ekki það að ég hafi séð nokkuð meira af þeirri framkvæmdaáætlun. Af því sem kemur fram í gögnum ráðstefnunnar að ráða er þar að auki starfandi starfshópur sem á að vera að glíma við verkefnið sem mér sýnist að eigi að skila af sér í lok árs 2019. Við bíðum öll spennt eftir því.En að efninu. Mig langar að tala í lausnum. Það eru í rauninni að finna ágætis tíðindi í skýrslunni. Það er nefnilega þannig að þar kemur fram að gildandi menntastefna sem birtist meðal annars í Aðalnámskrá leik- og grunnskóla (2011) virðist vera í meginatriðum í þokkalegu lagi. Það þarf bara að koma henni almennilega í framkvæmd – samkvæmt skýrslunni sýnir skólakerfið okkar aðeins viðleitni en ekki getu til þess að framkvæma menntastefnuna. Og það er ekki að furða! Menntastefnunni var kastað inn í skólanna án nokkurrar innleiðingar og það staðfestir skýrslan. Sýn og stefna skólanna hafa almennt ekki verið endurskoðaðar í anda nýrrar menntastefnu – ekki heldur starfshættirnir, það heyrir til undantekninga og það undirstrika skýrsluhöfundar.
Það er heljarinnar verk að endurskoða sýn og stefnu skóla, það vita þeir sem það hafa gert og sennilega er það þess vegna sem skólastjórnendur hafa veigrað sér við þá vinnu. Það er ekki bara nauðsynlegt heldur er það skylda leik- og grunnskólastjórnenda að setja fram stefnu skólanna í skólanámskrá og sjá til þess að hún birtist í daglegu starfi hvers einasta nemanda. Það þarf líka að skapa það umhverfi sem styður við framkvæmd skóla án aðgreiningar og hjálpa kennurum við að koma í framkvæmd þeim starfsháttum sem duga til þess að koma til móts við fjölbreyttar þarfir nemenda. Að sjálfsögðu þarf svo að veita þann stuðning sem kennarar þurfa til þess að virkja nemendur með fjölbreyttan vanda – og þann stuðning þarf að veita á gólfinu. Sem sagt, faglegur stuðningur við skólastjóra og kennara kæmi okkur að minnsta kosti af stað – og það mun fyrr en framkvæmdáætlun yfirvalda eða starfshópur menntamálaráðherra!
Það var sannarlega gott og skemmtilegt að þau Ragnar Þór Pétursson og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir voru sammála í Silfrinu um miðstýringarsýkina sem hefur grasserað lengi hjá ríki og sveitarfélögunum – þar verð ég að taka heilshugar undir með þeim. Er öll þessi miðlæga vinna að skila sér í betri þjónustu við nemendur? Er ekki nær að skólastjórnendur geti keypt sér aðstoð við að koma menntastefnunni í framkvæmd, kennararnir geti fengið hærri laun og aðstoð við að útfæra skóla án aðgreiningar í verki? Liggur fjármagnið ekki einmitt þar?
Hausinn er orðinn svo stór að limirnir eru orðnir blóðlausir. Eigum við að skera hausinn af og veitum skólastjórunum fjárhagslegt frelsi til þess að velja sér þau tæki og tól sem þeir þurfa til að koma menntastefnunni í framkvæmd, styðja við kennara og móta fjölbreytt og gott skólastarf sem kemur vel til móts við þarfir allra barna?
Vandi litlu sveitarfélaganna er af öðrum toga og ég mun fjalla um tækifæri til að leysa þeirra vanda hið fyrsta.
Kristrún Lind Birgisdóttir
Framkvæmdastjóri og eigandi Ásgarðs
Áður birt á trappa.is fyrir nafnabreytingu
Comments
Post a Comment