Ásgarður - skóli í skýjunum fékk starfsleyfi 18. maí 2021 til að starfrækja þróunarskóla á grunnskólastigi alfarið í skýjunum. Leyfið er veitt til þriggja ára. Menntamálastofnun er falið að fylgjast náið með verkefninu á tímabilinu og munu gera heildarúttekt á tilraunatímabilinu. Við í Ásgarði erum stolt og ánægð með það traust sem ráðherra sýnir okkur með því að heimila starfsemi skólans. Það er tímabært fyrir margra hluta sakir að valkostur um skólastarf án staðsetningar sé fyrir hendi, byggðarsjónarmið vega þungt, frelsi til flæðandi búsetu sem og sem valkostur fyrir börn og ungmenni sem eiga erfitt með margmenni. Það er mikilvægt að fram komi að það er að miklu leyti áræðni og hugrekki sveitastjórnarmanna í Reykhólahreppi að þakka að leyfið er í höfn- ekki síst Árnýjar Haraldsdóttur oddviti Reykhólahrepps og formanni mennta og menningarmálanefndar sem hefur haft óbilandi trú á verkefninu.
Tækifæri við útfærslur á skólastarfi í skýjunum eru fjölmörg. Nemendur tengjast í gegnum Ásgarð sem getur verið skóli og þróunarmiðstöð í leiðinni. Með tilkomu skólans geta nemendur á unglingastigi hafið fullt nám í Ásgarði óháð staðsetningu en stundað námið sjálft í skólabyggingunni sinni, heima hjá sér, á sjúkrastofnunum eða í útlöndum (t.d. afreksíþrótta börn). Aðrir nemendur geta stundað einstaka námsgreinar í Ásgarði eða hluta úr ári eða fullt nám með stuðningi foreldra, forráðamanna eða starfsfólks sveitarfélaga. Sérfræðingar í Ásgarði geta stutt við starfsemi leik- og grunnskóla á öllum stigum og veitt sérfræðiaðstoð við útfærslu á námi og kennslu þar sem fagmenntaða kennara vantar.
Til að fá námsvist í Ásgarði þurfa forráðamenn barna sem búa ekki í Reykhólahreppi að sækja um námsvist utan lögheimilis sveitarfélags og færa rök fyrir því hjá sínu sveitarfélagi og verður skólavist því ávallt háð samþykki viðkomandi sveitarfélags. Sum sveitarfélög eru með umsóknargátt á heimasíðum sínum en hjá öðrum þarf að fylla út eyðublað og senda.
Nemendur í Ásgarði geta fengið skólavist að ósk sveitarfélaga og þá er gert samkomulag um eðli og umfang þeirrar skólavistar. Eðlilegt er að námsvist nemenda í Ásgarði verði unnin í nánu samstarfi við fræðsluyfirvöld í því sveitarfélagi sem nemandinn býr í. Best fyrir forráðamenn er að snúa sér beint til Ásgarðs með fyrirspurnir og fylla út umsóknareyðublað Ásgarðs áður.
Forráðamenn greiða ekki fyrir skólavist í Ásgarði nema ef þeir ákveða að greiða skólagjöldin að fullu sjálfir vegna þess að viðkomandi sveitarfélag samþykkir ekki millifærsluna eða ef viðkomandi er ekki með lögheimili á Íslandi.
Upplýsingar um stefnu skólans, námsvísi og fleira er að finna á heimasíðu skólans.
Kristrún Lind Birgisdóttir er eigandi og framkvæmdastjóri Ásgarðsskóla í skýjunum og veitir allar upplýsingar um fyrirætlaða starfsemi. Rekstraraðili skólans er Í skýjunum ehf. Sími; 8999063 – kristrun@asgardsskoli.is
Comments
Post a Comment