Það heyrist oft í umræðunni að ástæða þess að drengir hafi slakan lesskilning sé að þeir lesi ekki nóg. Fyrir ansi mörgum árum fékk ég spurningu frá föður eins nemandans í umsjónarbekknum um hvernig væri hægt að bæta árangur hans á lesskilningsprófum. Ég nefndi að eina leiðin væri að lesa texta, lesa bækur eða tímarit. Faðirinn svaraði því til að drengir lesi ekki í dag og spurði hvað annað væri hægt að gera. Það sést á þessari spurningu og svari foreldrisins að það sem skipti máli var útkoma drengsins úr prófi en ekki áhyggjur af því að sonurinn les aldrei neitt og var með slakan lesskilning í öllu námi.
Annað sem heyrist oft er að nemendur sjái ekki tilgang í því sem við erum að gera og geri því ekkert. Ég hef sjálf nefnt það þegar ég tala um bráðgera nemendur, því ég hef séð að það hjálpar oft að útskýra tilgang verkefna fyrir þeim til að þeir nenni að gera þau. Eitt sem hjálpar er að vera með skýrar verkefnalýsingar, skýr námsmarkmið (hvað á nemandinn að læra?) og flott viðmið um árangur (hvernig uppfylla nemendur hæfniviðmiðin?). Fyrir suma nemendur (sérstaklega þessa bráðgeru) hentar illa að vera með fastan ramma um hvernig lokaafurð eigi að líta út heldur þurfa þeir og margir aðrir nemendur að fá að nota ímyndunaraflið og kannski getu og/eða vilja til að leita út fyrir námsefnið að svörum.
Eitt af því sem er að skila góðum árangri fyrir bæði drengi og nemendur sem vilja ekki vinna í vinnubókum eða lesa bækur, er svokallað Read aloud STEM. STEM stendur fyrir science (vísindi), technology (tækni), engineering (verk- eða tæknifræði) og math (stærðfræði). Ef að við bætum sköpun/hugvísindum í verkefnið (art) þá kallast þetta STEAM. Read aloud STEM er sköpun sem fylgir lestri bóka. Fólk sem hefur verið að notast við þessa aðferð undanfarin ár lýsa því hvernig drengir sérstaklega eru farnir að hlusta á annan og áhugasamari hátt á lestur bóka eða nýta sér innihald bóka á annan hátt. Þeir eru stöðugt að velta fyrir sér textanum og hvað þeir vilji endurskapa af því sem fram kemur í honum.
STEM verkefni snúast um að setja sig í spor fólks sem vinnur við þær greinar sem liggja að baki skammstöfuninni. Þau spor þýða að nemendur hafa alltaf ákveðin ramma og þeir gætu þurft að læra að ferlið sé allt annað en línulegt. Það gæti verið að eitthvað gerist í ferlinu sem breytir upprunalegum hugmyndum. Það gerist oft hjá fólki sem vinnur við að skapa eitthvað eins og brýr, byggingar, vegi, vélmenni….. Forsendur geta breyst eða það þarf að taka tillit til ákveðinna þátta. Þegar ég bý til STEM verkefni þá set ég oft inn eitt atriði sem þurfi að vera í verkefninu eða má alls ekki nota (og þá er það alltaf eitthvað sem ég veit að nemendur myndu sækja fyrst). Þetta snýst nefnilega um að vera lausnamiðaður.
Read aloud STEM snýst um að lesa bækur og velta fyrir sér hvað sé hægt að skapa úr þeim. Sem dæmi þá tók ég fyrir bókina Bankaránið í einu litlu STEM verkefni. Bókin fjallar um börn sem fara í sund og leysa bankarán. Í sundlauginni fara þau í vatnsrennibraut og verkefnið sem ég lagði fyrir eftir lesturinn var að búa til vatnsrennibraut. Ég setti inn þau skilyrði að nemendur yrðu að nota álpappir ásamt öðru efni sem þeir velja og að kúla yrði að geta rúllað niður rennibrautina. Eins og flestir vita þá eru vatnsrennibrautir oft þannig að það eru beygjur á þeim, þannig að flott nemendarverkefni myndi sýna það. Þetta með álpappírinn er svo bara eitthvað sem nemendur verða að taka tillit til við hönnunina. Þeir þurfa að finna hlutverk fyrir hann og eru þá komnir með eitthvað afmarkandi sem þeir myndu alltaf þurfa að huga að í sköpun sem tilheyrir STEM greinunum.
En það þarf ekki að vera þannig að kennarinn ákveði hvað eigi að skapa. Í Disney bókinni Dúmbó á ferð og flugi fara dýrin sem tilheyra sama sirkús og Dúmbó í ferðalag. Þau fara í lest, sem fer ekki að stað. Þau fara í skip, sem þau eyðileggja. Þau fara í flugvél en þurfa að lenda vegna slæms veður og þau fara í bíla. Eftir lestur á svona bók er ansi margt hægt að skapa. Hvernig komum við þungum farmi í flugvél og hún flýgur samt? Hvernig getum við gert skip þannig að það heldur 10-20 dýrum af mismunandi þyngd (nemendur geta valið dýr sem tilheyra oft svona sirkús). Þeir geta fundið út hversu þung dýrin eru og skapað eitthvað sem getur haldið þeim (eða bara eins þungum farmi og hægt er). Í raun eru möguleikarnir endalausir hvað varðar lausnir og sköpun eftir lestur svona bókar.
Þeir sem hafa gert þetta lengi myndu segja ykkur að á meðan lestrinum stendur þá spyrja nemendur oft hvort að þeir megi endurskapa eitthvað ákveðið í bókinni. Þeir eru með hugann við lesturinn AF ÞVÍ að þeir eru að leita af einhverju til að skapa. Þeir sjá þannig tilgang með lestri bókanna og hann er annar en að taka próf úr henni. Það er hægt að nota næstum allar bækur svona og ef að það er ekki eitthvað augljóst sem er hægt að skapa er það líklega bara betra. Ef að nemendur er að lesa bókina Drengurinn í röndóttu náttfötunum er hægt að biðja nemendur að hanna flóttaleið fyrir fólkið í útrýmingabúðunum þar sem það eina sem er hægt að nota er það sem fólk hafði til að borða úr eða annað í umhverfi þeirra (engin venjuleg verkfæri). Ef að bókin fjallar um fátækt er hægt að biðja nemendur að finna lausn til að enda fátæktina og þannig geta allar bækur haft skapandi eiginleika.
Við mælum með því að þið prófið að gefa sköpun lausan tauminn eftir lestur bóka og erum nokkuð viss um að ólíklegustu börn munu fara að lesa af því að þeir sjá tilgang með lestri bókanna, sem gefur þeim þá líka nýja tengingu við heim bókanna.
Comments
Post a Comment