Fyrir um tveimur árum skrifaði Rósa Eggertsdóttir læsissérfræðingur mjög góða grein sem birtist í Stundinni og hét Um inniviði og 16.000 kennslustundir. Það er óhætt að mæla með lestri þessarar greinar sem fjallar um slaka útkomu ungmenna okkar í Pisa könnunum. Það er eitt og annað sem þarf að ræða betur eða ítarlegra sem kemur fram þarna eins og mikilvægi þess að fjölga tímum í íslensku. Það eru nú þegar ansi margir íslenskutímar en það vantar algjörlega að skoða gæði þeirra. Svo er líka spurning hvort að það sé mikilvægt að hafa alla þessa íslenskutíma ef að þeir skila ekki betri árangri en þetta.
Það er nefnilega betra að gera alla tíma að íslenskutíma ef að við ætlum að bæta kunnáttu nemenda. Það skiptir ekki öllu máli að nemandi geti sýni lesskilning í íslensku ef að það færist ekki yfir á önnur fög. Nýverið var undirrituð með fyrirlestur um samþættingu og þar kom fram viðhorf raungreinakennara sem taldi það ekki vera innan síns verksvið að meta íslenskukunnáttu nemenda. Gott og vel, en ef að við hættum að hugsa nám og kennslu í þessum kössum sem faggreinarnir búa til og færum fókusinn að námsmarkmiðum jafnvel margra greina í einu verkefni, þá getum við auðveldlega gert öll verkefni að íslenskuverkefni.
Þessi pistill er með yfirskriftina Náms- og vinnubækur, við getum gert betur. Í fyrrgreindri blaðagrein Rósu, þá segir hún "ef nemandi getur hjálparlaust ráðið við verkefni í vinnubók þarf hann ekki á þeim að halda". En við ytra mat á kennslustundum hefur komið í ljós að 75% kennslustunda hérlendis eru fræðandi kennslustundir sem þýðir að kennarinn er með alla athyglina eða nemendur eru að vinna í vinnubókum þar sem svörin eru ljós og það er bara eitt rétt svar. Markmið íslenskra menntayfirvalda er að hafa leiðbeinandi kennslustundir en þær reyndust svo vera 7% þeirra kennslustunda sem voru skoðaðar árið 2020. Þannig kennslustundir byggja ekki á fyrirlestrum, vinnubókavinnu eða eyðufyllingum. Þær byggja á verkefnum sem hægt er að útfæra á ýmsan hátt.
Í nýrri menntastefnu ríksisins eru m.a. þessar áherslur.:
Ný menntastefna grundvallast á því að nemendur geti beitt rökvísi, ígrundun og hafi þekkingu til að skapa.
...sköpun í öllu skólastarfi til að stuðla að persónulegum þroska, frumkvæði og nýsköpum.
Unnið skal með samspil gagnrýninnar hugsunar og sköpunar til þess að þroska sjálfstætt gildismat nemenda til að setja ólíkar niðurstöður í samhengi og efla þroska til samfélagslegrar umræðu. niðurstöður í samhengi og efla þroska til samfélagslegrar umræðu.
Þar sem þetta er stefna yfirvalda og kennsla á að byggja á útgefnum stefnum, væri fróðlegt að heyra rök fyrir því að 75% kennslustunda séu fræðandi. Hvar væri allri þessari sköpun komið fyrir í þannig kennslu? Hvernig henta vinnubækur í verkefnum sem byggja á þessum kröfum?
Við gerð verkefna fyrir Námsgagnatorg Ásgarðs reynum við að hafa svona hluti á bak við eyrun. Við erum vissulega ekki að hugsa nám í kössum en við höfum reynslu af því að hversu auðvelt það er að gera öll verkefni að íslenskuverkefnum ef að við viljum. Hér er dæmi um mögulega útfærslu: Nemendur læra um orkuskipti. Þeir svara ákveðnum spurningum í verkdagbækur og þeir fá þau fyrirmæli að passa að hafa stóran staf eftir punkt, að hafa setningar ekki óþarflega langar og að nota fjölbreyttan orðaforða (ekki mikið um endurtekningar). Að vinnu lokinni þá kynna þeir verkefnið. Meðfylgjandi hæfniviðmið er úr íslensku- Ritun: Nemandi getur beitt helstu atriðum stafsetningar og greinarmerkjasetninga og hefur náð valdi á þeim. Viðmið um árangur er þá: Nemandi er með stóra stafi í upphafi setninga, hæfilegar langar setningar og er ekki með mikið af endurtekningum í textanum. Fyrir utan þetta, er verið að meta hæfni nemenda til kynna (sem er í mörgum faggreinahæfniviðmiðum) og hann er að vinna með orðaforða sem tengist náttúrugreinum.
Þegar nemendur fá skýr námsmarkmið sem m.a. eru tilgreind í viðmiði um árangur, þá skiptir ekki máli hvaða faggrein verið er að vinna með. Nemendur tikka í þau box sem þeim er gert að tikka í með því að uppfylla það sem beðið er um í viðmiði um árangur. En ef að nemendur eiga bara að passa stóran staf í upphafi setninga í einu fagi, 5 kennslustundir á viku (af 37), þá er ekki skrýtið að þeim gangi illa í íslensku. Ef að nemendur eiga bara að vinna með lesskilning í náttúrufræðitímum en vinna aðallega með málfræðiverkefni í íslenskutímum, þá eflist lesskilningurinn lítið. Það sama má segja ef að lesskilningur er þjálfaður 2x á ári í gegnum lestur bóka sem nemendur eiga að gera grein fyrir.
Ef að kennarar nota röng hugtök í hvaða fagi sem er, þá eflist hugtakaskilningurinn lítið. Undirritið hefur oft sagt frá því þegar hún lagði fyrir dæmi sem var hluti af kynningarprófi fyrir samræmd próf í stærðfræði þar sem nemendur voru beðnir að finna hver mismunur margfeldi ákveðinna tala og summa annarra talna væri. Meirihluti nemenda var í vandræðum með þetta dæmi. Ekki af því að þeir kunnu ekki að draga frá, margfalda eða leggja saman, heldur af því að þeir skyldu ekki spurninguna. Þeir þekktu það að mínusa, sinnuma og plúsa. Það voru hugtökin sem þeir notuðu og var notað þegar þeim var leiðbeint. Kennarar falla nefnilega oft í þá gryfju að einfalda nám nemenda og þá verður áherslan á að svara spurningum eða fylla í eyður rétt en ekki hvernig maður finnur svarið sem hlýtur að vera samt tilgangur náms.
Fyrir nokkrum árum þegar undirrituð var að leysa af í raungreinatímum þá var augljóst að nemendur lásu ekki textann í bókinni. Þeir lásu spurningarnar sem voru á "hinni" blaðsíðunni og skimuðu textann eftir réttum stað til að finna svarið. Ef að spurningin innihélt orð sem var ekki í textanum, voru margir í vandræðum, en flestir vissu að svarið væri á ákveðnum stað af því að spurningarnar voru í röð miðað við textann. Þeir vissu svo ekkert um það sem þeir voru að vinna með þegar tímanum var lokið og gátu ekki svarað spurningum mínum nema með því að leita í textanum, af því að þeir lásu aldrei allan textann. Svona vinnubrögð ýta ekki undir að nám eigi sér stað og námsmarkmið í svona tíma er að svara spurningum og klára blaðsíður en ekki að læra ákveðin atriði eða sýna hvernig maður getur gert grein fyrir þekkingu sinni.
Á Utís 2021 var mjög margt áhugavert sem fram kom í máli fyrirlesara en kannski það sem við ættum helst að taka með okkur og hafa á bak við eyrað í hvert sinn sem við leggjum fyrir verkefni er að tengja ekki framhjá námi nemenda, þ.e. að gefa þeim svörin. Annar fyrirlesari sagði - þegar þú kennir barni eitthvað, ertu búin að taka af því möguleikann að það geti lært það sjálft. Þegar við notum vinnubækur, erum við að tengja framhjá námi nemenda (þeir vita að það er eitt rétt svar og eru oft stressaðir yfir að skrifa það ekki alveg kórrétt) og við erum búin að taka af þeim möguleikann að þeir læri það atriði sjálfir.
Undirrituð las ritrýnda grein (fyrir meistaraverkefni) þar sem kom fram að rannsókn á kennslubókum í raungreinum sýndi að nemendum fer aftur í námi vegna þeirra. Kennslubækur eru taldar of yfirgripsmiklar og það er lítið svigrúm gefið til að kafa djúpt í atriði sem geta höfðað til nemenda og vakið áhuga þeirra. Aðal áherslan verður á að klára bókina og námsmarkmiðið snýst þá ekki síst um það atriði.
Við getum gert betur og ef að við höfum í huga annað sem kom fram á UTís 2021 þá vilja nýjar kynslóðir hafa áhrif, þær vilja ekki vera mataðar af upplýsingum og með því að vera með skýr námsmarkmið, þá getum við eflt metnað, þekkingu og hæfni nemenda umtalsvert.
Nú þegar ný önn er hafinn, hvet ég kennara til að búa til kennsluáætlanir sem byggja á námsmarkmiðum en ekki blaðsíðum eða kaflaheitum í bókum, að búa til verkefni þar sem nemendur fá tækifæri til að uppfylla og þjálfa það sem fram kemur í nýrri menntastefnu yfirvalda. Það eru góð markmið.
Gleðilegt ár
Anna María Kortsen Þorkelsdóttir - Ráðgjafi hjá Ásgarði í skýjunum
Comments
Post a Comment