Askurinn, námsumsjónarkerfi og námsgagnatorg Ásgarðs skólaráðgjafar, er í stöðugum vexti. Það hefur verið ótrúlega skemmtilegt að þróa Askinn á síðustu árum, þó það reyni stundum á þolinmæðina. Í upphafi varð Askurinn til út frá samstarfi við grunnskólakennara sem við hjá Ásgarði skólaráðgjöf höfum verið svo heppin að vinna með á síðustu árum. Verkefni okkar sem skólaráðgjafaþjónustu er og hefur alltaf verið að styðja við kennara og stjórnendur í leik- og grunnskólum víða um land til að efla gæðastarf og innleiða skólastefnur sveitarfélaganna og ríkisins inn í starfsemi skólanna.
Á sama tíma eru við í Ásgarði skólaráðgjöf að leita leiða til að mæta þörfum kennara, meðal annars með því að búa til gögn og efni sem væri hægt að koma beint til þeirra og koma jafnframt námsmati og verkefnasafni nemenda á einn stað. Til að gera langa sögu stutta þá náðum við hjá Ásgarði og Learncove saman á réttum tímapunkti. Við áttum orðið töluvert safn af kennsluáætlunum sem við vorum búin að tengja bæði hæfniviðmiðum Aðalnámskrár og fjölbreyttu gagnasafni MMS. Þannig verður Askurinn til, við nýtum vefumsjónarkerfið Learncove og gefum því nafn og form Asksins.
Það að koma okkar gæða kennsluáætlunum og öðru efni inn á Askinn og til kennara varð vendipunktur í starfi Ásgarðs skólaráðgjafar. Kennarar, skólastjórnendur og sveitastjórnarmenn sjá nú kosti þess að kennarar hafi aðgang að miðlægu, stafrænu gæða gagnasafni og sjá hversu mikinn tímasparnað slíkur aðgangur hefur í för með sér. Stærsta einstaka samstarfsverkefni okkar nú er við Kópavogsbæ en Kópavogur er fyrsta sveitarfélagið sem ætlar sér að nýta sér bæði aðgang að miðlægum gagnagrunni okkar í Askinum og safna í sitt eigið miðlæga gagnasafn á milli sinna skóla.
Askurinn er tímamótaverkefni. Það er ekki aðeins sannfæring mín og teymis míns, heldur benda öll gögn sem við erum að safna í þá átt. Þegar þetta er ritað höfum við krækt í 80% af hæfniviðmiðum Aðalnámskrár, nánast öllum verkefnum fylgja viðmið um árangur sem kennarar geta aðlagað og nemendur og foreldrar geta séð. Í verkefnabankanum eru á annað þúsund verkefni í rúmlega 70 samþættingar/þema verkefnapökkum sem hægt er að nýta bæði í fagreinakennslu og samþættingu og henta einkar vel í teymiskennslu.
Yfirlit yfir verkefnasafnið er á www.askurinn.net
Kristrún Lind Birgisdóttir
Eigandi og framkvæmdastjóri Ásgarðs