Þegar tækifæri er til breytinga á áherslum náms og kennslu er ágætt að stoppa og ígrunda af hverju við erum að gera það sem gerum. Fyrir hvern erum við að mennta börn? Er það fyrir þau, næsta skólastig, fyrir samfélagið eins og það er núna eða fyrir þau og samfélagið til framtíðar?
Hvað sem okkur kann að finnast um það hér á Íslandi, hafa stefnur OECD í menntamálum bein áhrif á stefnur Íslands. OECD er með stefnu í gangi sem kallast Wellbeing og við höfum þýtt sem farsæld. Inclusion er líka stefna OECD og reyndar fleiri stofnanna eins og SÞ og UNESCO og það hefur verið þýtt sem inngilding, þannig að þó að þýðingar á hugtökum séu okkar, eru stefnurnar það ekki. OECD kom líka að gerð menntastefnu ríkisins sem er í gildi til 2030. Stefnan er í takt við þær þjóðfélagsbreytingar sem þurfa að eiga sér stað til að undirbúa börnin okkar fyrir þeirra framtíð sem er um leið okkar framtíð. Allar slíkar breytingar þurfa að byggja á rannsóknum, stöðu samfélaga, greiningu á framtíðarþörfum þeirra og allra einstaklinga sem búa á þessari jörð.
Börn í dag eru ekki eins og börn voru og okkur mun aldrei vera ágengt ef að við ætlum að troða þeim í kassana sem við, sem eldri erum, var raðað í. Samfélagið sem við vorum undirbúin undir, hefur breyst. Þarfir samfélaga hafa breyst. OECD hefur metnað og fjármagn til að stuðla að þeim breytingum sem þarf að setja á oddinn. Fyrsta flokks skólaþróun væri líklega of há fjárhagsleg byrði á okkar litlu örþjóð og því er það alls ekki neikvætt fyrir okkur að fylgja áherslum OECD, þó að sumum virðist finnast það. Svona lærum við af því sem aðrir hafa reynt og stefnum í eina sameiginlega átt. Við erum öll hluti af sömu jörðinni og bæði fólk og samfélög hafa sömu grunnþarfir, hvar sem það býr. Markmið heimsmarkmiða og Barnasáttmála SÞ koma líka inn í þessa breytu ásamt stefnu UNESCO í menntamálum. Ef að þjóð eins og Ísland breytir engu eða við breytum of hægt, verðum við hægt og hljótt samfélag sem fylgir ekki þróun í síkvikum heimi og þá er ekki von á góðu. Við erum aldrei að fara til baka, það er alveg augljóst enda engin ástæða til þess. Við erum að skoða breytingar á okkar aðalnámskrám núna og þegar breytingar eiga sér stað, sem eru ekki í samræmi við t.d. menntastefnu ríkisins eða stefnu aðalnámskráa (sem er ansi skýr á að grunnþættir menntunar og lykilhæfni sé sú hæfni sem eigi að fléttast inn í alla kennslu), þá er ágætt að horfa á hvert við stefnum næst. Það má alveg gefa sér að OECD muni hafi eitthvað um það að segja.
Árið 2018 hóf OECD endurskoðun á áherslum sambandins (og þar á meðal PISA) sem kallast PISA High Performing Systems for Tomorrow (HPST). Þetta ber með sér grundvallarbreytingum á markmiðum náms. Nú ætla ég ekki að segja að þær hugmyndir sem eru uppi núna, verði það sem stýrir síðar en það eru teikn á lofti um að svo verði (og þetta er hluti af farsældar vinnunni). Ástæða þess að það er sé hægt að gefa sér að þessar breytingar verði ofan á er einföld, því að krafan um þær er að ósk þjóða eins og Finnlands og Singapore sem skora vel á PISA prófunum. Þessar þjóðir og fleiri hafa óskað eftir endurskoðun á prófinu og það vill svo skemmtilega til að það er íslendingur sem fékk það verkefni að aðstoða sambandið. Sá íslendingur er Kristján Kristjánsson heimspekingur. Stefnan kallast á ensku Education for Human Flourishing (ég ætla ekki að reyna að þýða það). Þarna er verið að leggja áherslu á heildræna lausn fyrir skóla og menntakerfi þar sem lykilhæfni er þróuð áfram, nám verður einstaklingsmiðaðra en það er núna til að mæta þörfum fjölbreyttra nemenda og það samþættist tækni og tækniþróun. Þetta ákvæði er t.d. mjög mikilvægt því að það vita allir sem vilja vita það að gervigreindin er komin til að vera og það er okkar að læra að nýta hana og byggja hana upp, þannig að hún hafi ekki neikvæð áhrif á líf okkar og þeirra sem á eftir okkur koma. Við megum ekki gleyma að enn stjórnum við þessari greind, hvað sem svo sem verður síðar. Siðferðilegur styrkleiki er því mikilvæg hæfni að hafa fyrir alla, bæði til að geta þroskast í dag og til að taka á við áskoranir framtíðar.
Það eru þrjú lykilviðmið sem þessi stefna gengur út á að við eflum í skólum og það eru (á ensku aftur) adaptive problem-solving, ethical decision-making, and aesthetic appreciation. Eins og Kristján hefur komið inn á er þetta tekið frá Aristóteles en þróað til að passa inn í nútímann (Neo-Aristotelanism). Lausnamiðun höfum við haft sem markmið lengi en kannski ekki í þessum samhengi. Okkur er ætlað að vinna með rauntengd verkefni með nemendum, þar sem reynir á siðferðisþrek þeirra og lausnamiðun sem tengist svo fagurfræðilegri upplifun (enska: awe)). Ef að við horfum á námsgryfju James Nottingham þá sýnir hann líka hvernig þessi tilfinning gæti eflt námsárangur nemenda þegar yfir gryfjuna er komið.
Þessi lykilviðmið eru hluti af þeirri lykilhæfni þarf því að efla í skólum. Við þurfum að leggja enn meiri áherslu á lykilhæfni hérlendis en alls ekki minni áherslu. Það voru mistök við yfirstandandi endurskoðun á aðalnámskrá grunnskóla að flétta henni ekki inn í öll fög eða bara sleppa því að faggreinaskipta hæfnviðmiðum og hugsa þetta allt upp á nýtt. Það eru markmið með öllum faggreinum eins og fram kemur í aðalnámskránni en þessi faggreinaskiptu hæfniviðmið eru óþarfi að mínu mati. Ef að nemendur geta rökstutt það sem kennari vill að þau læri, er það hæfni sem á við um flestar faggreinar. Ef að kennari vill að nemandi geti tjáð hugsanir sínar, sýnt þrautseigju í náminu og sýnt siðferðilega hæfni í samskiptum, þá á það líka við um allar greinar. Kerfið þarf ekki að ákveða að nemendur eigi að læra eitthvað ákveðið, því við höfum ekki hugmynd um hversu lengi það verði nauðsynleg þekking að hafa. Kennari á að geta þjálfað hæfni sem nýtist nemendum til framtíðar, hæfni sem gerir þeim kleift að læra að læra og sýna 21. aldar hæfnina sem við eigum að vera að efla með þeim. Þekkingin sem þar liggur að baki er ekki eins mikilvæg í stóra samhenginu þó að vissulega sé hún grundvöllur náms. En hvort að nemendur læra um og geti sýnt hæfnina að nýta það sem þau hafa lært um rafmagn á yngsta stigi, miðstigi og elsta stigi, þarf ekki að vera mikilvæg hæfni. Ef að kennari vill að nemendur læra um það í tengslum við eitthvað annað, þá er það það sem skiptir máli - ekki aldur þeirra. Kennurum er alveg treystandi til að ákveða hvað hver námshópur lærir svo lengi sem hann veit hvaða hæfni hann á að vera að þjálfa með nemendahópnum. Fyrir nokkrum árum var nám og kennsla tekin í gegn í Sönderskov skolen í Danmörku. Þau fóru í svokallað LEAPS verkefni og eins og skólastjórinn kynnti þetta þá stóð ekki til að kenna dönsku kóngaröðina, bara af því að það hafi alltaf verið gert. Það var ekki bannað að kenna hana, heldur þurfi verkefnið að passa inn í námsferli sem í þessu tilfelli tengist vísindum (S stendur fyrir science) og ef að hún gerði það ekki, var henni sleppt. Við verðum að vera duglegri að gagnrýna hvað við kennum og vita nákvæmlega af hverju við erum að kenna það sem við leggjum fyrir nemendur. Markmið náms er aldrei að kenna eitthvað svo að nemendur séu undirbúnir fyrir næstu námsbók, bækur stýra ekki námi og eru aldrei markmið náms.
Ástæða þess að þessar fyrrnefndu þjóðir óskuðu eftir áherslubreytingu er einmitt að það er markmið menntakerfa að þjálfa hæfni nemenda til framtíðar, eða eins og Andreas Schleicher menntastjóri OECD skrifaði fyrir mörgum árum, að mennta nemendur fyrir þeirra framtíð en ekki okkar fortíð. Þeirra framtíð er samofin gervigreind og það er mjög ljóst af bæði umræðum hérlendis og erlendis að skólakerfið þurfi að gera betur til að mæta öllum nemendum. Ef að við viljum vera tilbúin fyrir þessi framtíðarstef, þá þurfum við í sameiningu að eiga samtal um hvað sé í raun gæða kennsla til framtíðar sem nýtist nemendum okkar. Að undirbúa nemendur betur undir tæknina og áhrif hennar á líf þeirra, þá er ekki verið að tala um að nota tölvur, bara til að nota þær.
Þegar við tölum um stafræna tækni í kennslu og hæfni nemenda til að nýta hana, er mikilvægt að skilja að það þýðir ekki endilega að allt nám fari fram í tölvum. Stafræn tækni er tól sem getur dýpkað nám og gert það sveigjanlegra, en hún á ekki að útiloka hefðbundnar kennsluaðferðir eða takmarka sköpunargáfu nemenda og kennara. Sköpunarhæfnin er ekki bundin við tæknina, heldur sprottin úr ímyndun, þekkingu og hæfni þeirra sem hana nota.
Stafræn tækni er til dæmis notuð til að opna aðgang að fjölbreyttum upplýsingum, stuðla að samvinnu milli nemenda sem eru ekki á sama stað (t.d. á milli nemenda sem eru í skólastofunni og hinna sem þurfa annað umhverfi) og veita aðgang að sérhæfðum forritum sem geta hjálpað til við rannsóknir og verkefnavinnu. Hún býður upp á fjölbreyttar leiðir til að mæta þörfum nemenda með mismunandi áhugasvið og styrkleika og getur þannig verið mikilvægt verkfæri í kennslu til að mæta fjölbreyttum nemendahóp. Markmiðið með notkun stafrænnar tækni ætti að vera að styrkja og bæta nám nemenda, en ekki að taka yfir kennsluna eða færa hana alfarið yfir á rafrænt form. Það er lykilatriði að kennarar noti stafræna tækni gagnrýnið og á markvissan hátt, með það fyrir augum að stuðla að dýpri skilningi og þroska nemenda.
Í ljósi þessa yfirvofandi breytinga á menntakerfinu, sem miða að því að undirbúa nemendur betur fyrir framtíðina, skiptir máli að hafa áhrifarík mælitæki til að meta framfarir og hæfni. Það skiptir þó miklu máli hvað við erum að meta. Námsmat er ekki aðeins mikilvægt fyrir nemendur, til að sjá og skilja eigin framfarir, heldur einnig fyrir yfirvöld sem vilja fylgjast með árangri í alþjóðlegum samanburði eins og PISA prófið býður upp á.
Við þurfum því að þróa námsmat sem tekur mið af þessum breyttu áherslum og OECD er að þróa slíkt mælitæki til að geta breytt PISA prófinu. Mælitækið ætti ekki aðeins að meta hefðbundna þekkingu, heldur einnig hæfni eins og lausnaleit, siðferðislega ákvarðanatöku og fagurfræðilega þekkingu/hrifningu, sem eru lykilþættir í nýrri menntastefnu. Með því að nýta fjölbreyttar matsaðferðir, svo sem jafningjamat, verkefnamiðað mat (leiðsagnarmat) og sjálfsmat, getum við veitt réttmætara og heildstæðara yfirlit yfir hæfni og þroska nemenda um leið og við að undirbúa nemendur undir að taka þessi blessuðu PISA próf sem við fáum á einhverjum tímapunkti. Veljum við þessa nálgun mun það ekki aðeins veita okkur tæki til að bæta menntun heldur einnig styrkja stöðu okkar í alþjóðlegum samanburði með því að sýna fram á raunverulegan árangur í því að búa til frjóan jarðveg fyrir hæfileika og færni sem munu skipta máli í framtíðinni.
Þetta þýðir líka að starfsþróun kennara þarf að snúast um þetta atriði. Kennarar þurfa að hafa hæfni til að bjóða upp á vel skipulagt nám með skýrum markmiðum, hafa verkfæri/þekkingu til að bjóða upp á sveigjanlegt nám fyrir öll, með áherslu á stafrænt læsi, eflingu leiðtogahæfni nemenda og þau sjálf þurfa að hafa getu til að vinna með öðrum. Markmið þeirrar teymisvinnu væri að því að byggja upp námsumhverfi fyrir alla nemendur þar sem þau geta vaxið og dafnað út frá eigin forsendum og öll hafi tækifæri til að sýna framfarir í námi án þess að það hafi neikvæð áhrif á samskiptahæfni þeirra eða líðan. Það er mikilvægt að kennarar njóti aukins stuðnings við að tileinka sér nýjar aðferðir og tækni. Þjálfun og endurmenntun verður að vera í boði til að tryggja að kennarar séu vel undirbúnir til að mæta þörfum fjölbreyttra nemendahópa og nýta tækni á skilvirkan hátt til að efla nám. Þau sem standa að þessum breytingum eru mjög skýr á því að þetta er ekki ný faggrein, það er ekki verið að skipta neinu út eða leggja ofan á annað sem er gert, heldur eigi að flétta þetta inn í allt nám og alla kennslu. Það góða við PISA er að það sýnir okkur að börnunum okkar líður vel og að þessar áherslubreytingar eru ekki endilega fyrir okkur, heldur fyrir aðrar þjóðir sem sýna meiri vanlíðan ungs fólks. Umræða í fréttamiðlum hérlendis benda þó til misskiptingar gæða, þar sem t.d. nemendur sem eiga ekki heima í hefðbundnu námsumhverfi vegna ýmissa mismunandi áskorana verða hornreka í menntakerfinu. Við sjáum líka að nýbúarnir okkar eru ekki að sýna nægjanlegar framfarir, þannig að þessar áherslubreytingar OECD mun kannski hjálpa a okkur að gera okkar menntakerfi enn betra fyrir öll.
Að lokum má ekki gleyma því að foreldrar og aðrir forráðamenn hafa lykilhlutverk í því að styðja við breytingar í menntakerfinu. Með því að taka virkan þátt í skólasamfélaginu og umræðum um menntamál og þarfir menntakerfisins til framtíðar, geta þeir hjálpað til við að móta stefnur sem styðja við velferð og þroska allra nemenda. Það virðist oft gleymast í umræðu á milli heimilis og skóla að skólar hafa þróast og þurfa að gera það áfram og við sem samfélag þurfum að vera samtaka í þeirri vegferð.
Ég er spennt fyrir þessari framtíðarsýn, ég vona að þú sért það líka.
Ef að þú vilt skoða þær leiðir sem OECD er að velta fyrir sér að í þróun menntastefna til framtíðar þá er hægt að sjá það hér: https://www.youtube.com/watch?v=WbE-cSsvneY
Heimildir:
Ministry of Education, Finland. (2023). Reflections on Competences for Human Flourishing. Reflections on Competences for Human Flourishing | OECD
Scharmer, O. (2023). Seven Core Capacities for Co-creating the Emerging Future. Education for Human Flourishing: Seven Core Capacities for Co-creating the Emerging Future | OECD
Ministry of Education, Singapore. (2023). Learning Environments for Flourishing: Spaces, Themes and Principles for Design. https://www.moe.gov.sg
Hannon, V. (2023). Towards an Education Workforce dedicated to Human Flourishing. OECD Publishing. Learning Environments for Flourishing: Spaces, Themes and Principles for Design
OECD (2023). High Performing Systems for Tomorrow: 2023 Conceptual Framework. High Performing Systems for Tomorrow 2023 Conceptual Framework | OECD
Comments
Post a Comment